FH gekk í gær frá ráðningu á Heimi Guðjónssyni sem aðalþjálfara karlaliðs félagsins í Bestu deildinni. Heimir er mættur á heimaslóðir en honum var vikið úr starfi haustið 2017.

Heimir hefur þjálfað HB í Færeyjum og Val frá því að FH sagði upp samningi hans. Hann varð meistari í Færeyjum og Íslandsmeistari með Val en var rekinn úr starfi á Hlíðarenda í sumar. Sigurvin Ólafsson sem tók við FH undir lok móts þegar Eiður Smári Guðjohnsen steig til hliðar verður þjálfari liðsins með Heimi, þeir hafa áður unnið saman í Kaplakrika þegar Heimir var aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannessonar og Sigurvin var leikmaður.

„Þegar við settumst niður þá tók þetta ekki neinn rosalegan tíma, þetta er búið að vera vika sem samtalið hefur verið í gangi. Það var mikill vilji hjá öllum aðilum til að þetta myndi ganga upp,“ segir Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH, um ráðninguna á Heimi.

Mikla eftirvæntingu mátti skynja í Kaplakrika í gærkvöldi þegar nýtt teymi FH var kynnt til leiks. „Endurkoma Heimis hefur alveg klárlega búið til mikla eftirvæntingu, maður finnur það alveg. Fólk er ánægt með þetta, árangurinn hans Heimis hér áður var auðvitað engum líkur.“ FH hélt sæti sínu í Bestu deildinni á markatölu í sumar, þessi risi í íslenskum fótbolta hefur verið sofandi síðustu ár.

„Auðvitað er ekki hægt að horfa á þetta öðruvísi en að það sé að einhverju leyti uppbygging sem bíður Heimis og Sigurvins. Maður kemst ekki hjá því að segja það að einhver uppbygging þarf að eiga sér stað en við lítum samt á það þannig að við séum með fínan hóp í höndunum. Verkefni þjálfaranna, okkar sem erum í kringum þetta og leikmanna er að finna út hvernig við getum styrkt okkur innan frá. Planið er ekki að kollvarpa leikmannahópnum, við teljum hópinn miklu betri en hann hefur sýnt síðustu tvö sumur og nú er að finna út úr því hvað þarf til svo það sýni sig innan vallar. Það býr meira í okkur,“ segir Davíð Þór um komu Heimis.