Toby Alderweireld, belgíski miðvörður Tottenham, segist vera ánægður í herbúðum Tottenham og að hann muni ekki óska eftir sölu frá félaginu í sumar.

Félagið nýtti sér nýlega klásúlu til að framlengja samning hans sem átti að renna út í sumar um eitt ár. Samkvæmt ákvæðinu getur Tottenham ekki hafnað tilboði upp á 25. milljónir punda í Alderweireld þegar nýji samningurinn tekur gildi.

Hann hefur verið undir smásjá stærstu liða heims undanfarin ár og þrálátlega orðaður við Manchester United en hann virðist ætla að leika næstu átján mánuði með Tottenham.

„Ég er ánægður að vera hér í eitt ár til viðbótar. Félagið sýnir mér traust með því að framlengja og ég get þá einbeitt mér að því að spila fótbolta og hjálpa liðinu.“

Ef hann skrifar ekki undir nýjan samning á næstu átján mánuðum verður honum frjálst að yfirgefa félagið og semja við önnur félög án þess að Tottenham fái greitt fyrir.