Martin Hermannsson snéri aftur inn á körfuboltavöllinn með liði sínu, Valencia, þegar liðið lagði RETAbet Bilbao í spænsku úrvalsdeildinni um síðustu helgi. Martin tognaði á kálfavöðva í leik Valencia gegn Barcelona um miðjan mars og hefur landsliðsmaðurinn verið fjarri góðu gamni síðan þá.

„Það var mjög góð tilfinning að komast aftur inn á völlinn. Ég var búinn að vera heill vikuna áður en að þessum leik kom en þar sem það var góður taktur í liðinu og það gekk vel í leikjunum á þeim tímapunkti þá var ákveðið að bíða aðeins með endurkomuna hjá mér.

Ég kom svo inn í leikinn gegn Bilbao þar sem við byrjuðum rólega. Ég náði að koma inn með krafti og innkoma mín átti þátt í að snúa leiknum okkur í hag sem var bara hið besta mál,“ segir Martin um fyrsta leikinn hjá sér í rúman mánuð.

„Við höfum verið helst til sveiflukenndir á þessu tímabili og það svíður ennþá að hafa ekki náð að komast í úrslitakeppnina í Euro League. Það var markmiðið að komast þangað og 19 sigurleikir duga vanalega til þess að gera það. Það var bara einn sigur sem skildi að og maður hefur verið að fara yfir nokkra leiki í huganum þar sem við hefðum getað gert betur. Við náðum að vinna öll liðin í Euro League einu sinni í vetur og sýndum að við eigum klárlega heima í þessari sterkustu félagsliðadeild Evrópu. Forráðamenn Valencia hækkuðu launakostnaðinn og fengu til sín leikmenn síðasta sumar með það að leiðarljósi að gera sig gildandi í Euro League. Ég held að árangur okkar í vetur skili okkur sæti í deildinni á næstu leiktíð og þá mætum við reynslunni ríkari,“ segir hann.

Hafa unnið fjórum sinnum

Valencia hefur ekki áður náð að komast alla leið í Euro League en liðið hefur aftur á móti unnið Euro Cup fjórum sinnum, árin 2003, 2010, 2014 og 2019. Þá hefur Valencia einu sinni orðið spænskur meistari en það var árið 2017.

„Eftir að við féllum úr leik í Euro League höfum við haft betur í sex deildarleikjum í röð. Við höfum náð nokkrum sigurhrinum yfir leiktíðina og náð nokkrum góðum köflum. Það hefur hins vegar vantað upp á stöðugleika en margir tapleikir í deildinni hafa komið í kjölfar leikja í Euro League. Nú er einbeitingin bara á deildinni hjá landa og við sleppum við ferðalögin milla landa. Ég finn það alveg að við erum ferskari og svo eru leikmenn sem hafa verið meiddir í vetur að ná sér af þeim meiðslum. Það eru allir klárir í slaginn fyrir lokasprettinn og ég er bara bjartsýnn á að við klárum þetta með stæl,“ segir Martin.

„Það lítur út fyrir að við mætum Baskonia, sem var einnig í Euro League, í átta liða úrslitum og svo Barcelona eða Real Madrid ef við klárum það einvígi. Þetta eru sömu andstæðingarnir og Valencia mætti þegar liðið fór alla leið vorið 2017. Við erum með svipað lið og Baskonia og við höfum lagt Barcelona og Real Madrid að velli á þessu tímabili. Við getum alveg farið í úrslitaviðureignina en það ræðst bara á gamla góða dagsforminu og hvernig málin þróast með meiðsli og annað,“ segir bakvörðurinn.

„Spænska efsta deildin er sterkasta landsdeildin í Evrópu og ólíkt því sem var í Þýskalandi þá getur þú aldrei slakað á án þess að vera refsað. Þeir leikmenn sem spila í liðunum í neðri hlutanum vilja spila fyrir Valencia og freista þess að sýna sig og sanna í leikjum á móti okkur. Það er mjög gaman að spila í þannig umhverfi og ég hlakka til að spila í úrslitakeppninni. Gengi okkar í deildarkeppninni er undir væntingum og stefnan er að bæta upp fyrir það í úrslitakeppninni,“ segir þessi 26 ára gamli leikmaður.

Valencia situr í fimmta sæti spænsku úrvalsdeildarinnar þegar liðið á eftir að spila fimm leiki í deildinni.

Martin og félagar mæta UCAM Murcia í deildarleik í kvöld.