Breski ökuþórinn og sjöfaldi heimsmeistarinn, Sir Lewis Hamilton, liðsmaður Formúlu 1 liðs Mercedes hefur brugðist við þrálátum vangaveltum um framtíð hans í mótaröðinni. Við kynningu á nýjum bíl Mercedes í dag sagði Hamilton ekki á förum neitt annað.
Núverandi samningur Hamilton við Mercedes rennur út eftir komandi tímabil. Sögusagnir hafa verið uppi um viðræður hans við liðið um nýjan samning en vendingarnar milli tímabili hafa verið litlar sem engar fyrir augum almennings.
Mercedes kynnti í dag bíl sinn, W14 2023, fyrir komandi tímabil í Formúlu 1 og hvað útlit bílsins varðar er snúið aftur til fortíðar til tíma sem var afar sigursæll fyrir Hamilton. Mercedes bíllinn verður svartur að lit á næsta tímabili.

Við frumsýningu bílsins í dag gafst tækifæri til þess að spyrja Hamilton út í framtíð hans í Formúlu 1 en Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes hefur áður sagst fullviss um að hann kroti undir nýjan samning.
Hamilton var spurður að því hvort Mercedes þyrfti að sanna fyrir honum að liði geti komist aftur á topp Formúlu 1, til þess að hann skrifi undir nýjan samning.
,,Nei liðið þarf ekki að sanna neitt fyrir mér," var svar Hamilton sem bætti við. ,,Við höfum sannað það aftur og aftur í gegnum árin að liðið býr yfir miklum styrkleikum og dýpt."
Mercedes sé á afar góðum stað og liðsandinn nú er einn sá besti sem Hamilton hefur upplifað í herbúðum þess.
,,Þetta eru spennandi tímar fyrir lið og ég ætla mér ekki að fara neitt."
Wolff staðfesti að fyrsti fundur viðræðna Mercedes við Hamilton hafi nú þegar farið fram.
,,Ég vil ekki nefna neinn sérstakan tímaramma í þessum efnum," sagði Wolff um hvenær samningar geti náðst. ,,Þetta er ekki mikilvægasta atriðið hjá honum né okkur á þessum tímapunkti.
Tímabilið stendur yfir í ár og við munum finna rétta tímann."