Breski öku­þórinn og sjö­faldi heims­meistarinn, Sir Lewis Hamilton, liðs­maður For­múlu 1 liðs Mercedes hefur brugðist við þrá­látum vanga­veltum um fram­tíð hans í móta­röðinni. Við kynningu á nýjum bíl Mercedes í dag sagði Hamilton ekki á förum neitt annað.

Nú­verandi samningur Hamilton við Mercedes rennur út eftir komandi tíma­bil. Sögu­sagnir hafa verið uppi um við­ræður hans við liðið um nýjan samning en vendingarnar milli tíma­bili hafa verið litlar sem engar fyrir augum al­mennings.

Mercedes kynnti í dag bíl sinn, W14 2023, fyrir komandi tíma­bil í For­múlu 1 og hvað út­lit bílsins varðar er snúið aftur til for­tíðar til tíma sem var afar sigur­sæll fyrir Hamilton. Mercedes bíllinn verður svartur að lit á næsta tíma­bili.

Bíll Mercedes fyrir næstatímabil er glæsilegur. Hér eru ökumenn liðsins, aðalökumennirnir George Russell og Lewis Hamilton ásamt liðsstjóranum Toto Wolff og varaökumanninum Mick Schumacher
Fréttablaðið/Skjáskot

Við frum­sýningu bílsins í dag gafst tæki­færi til þess að spyrja Hamilton út í fram­tíð hans í For­múlu 1 en Toto Wolff, liðs­stjóri Mercedes hefur áður sagst full­viss um að hann kroti undir nýjan samning.

Hamilton var spurður að því hvort Mercedes þyrfti að sanna fyrir honum að liði geti komist aftur á topp For­múlu 1, til þess að hann skrifi undir nýjan samning.

,,Nei liðið þarf ekki að sanna neitt fyrir mér," var svar Hamilton sem bætti við. ,,Við höfum sannað það aftur og aftur í gegnum árin að liðið býr yfir miklum styrk­leikum og dýpt."

Mercedes sé á afar góðum stað og lið­sandinn nú er einn sá besti sem Hamilton hefur upp­lifað í her­búðum þess.

,,Þetta eru spennandi tímar fyrir lið og ég ætla mér ekki að fara neitt."

Wolff stað­festi að fyrsti fundur við­ræðna Mercedes við Hamilton hafi nú þegar farið fram.

,,Ég vil ekki nefna neinn sér­stakan tíma­ramma í þessum efnum," sagði Wolff um hve­nær samningar geti náðst. ,,Þetta er ekki mikil­vægasta at­riðið hjá honum né okkur á þessum tíma­punkti.

Tíma­bilið stendur yfir í ár og við munum finna rétta tímann."