Jean Todt, fyrrum liðs­stjóri Michael Schumacher­s hjá For­múlu 1 liði Ferrari og náinn vinur þýsku goð­sagnarinnar segir hann enn vera hluta af lífi sínu. Hann segir Michael mjög at­hugulan en lítið hefur frést af líðan Schumacher eftir að hann lenti í skíðaslysi árið 2013.

Í nýrri heimildar­mynd sem er fram­leidd af Canal + og ber nafnið La Methode er fjallað um feril Jean Todt, meðal annars innan For­múlu 1 sem og Al­þjóða akstur­s­í­þrótta­sam­bandsins (FIA). Þá er honum fylgt eftir síðustu mánuðina í em­bætti for­seta FIA en em­bættis­störfum hans lauk í desember á síðasta ári.

Sam­starf Todt og Michael Schumacher hjá Ferrari leiddi af sér fimm heims­meistara­titla en um leið urðu þeir mjög nánir vinir. Sam­bands Todt við Schumacher fjöl­skyldunnar ert sterkt og hann heim­sækir hana reglu­lega.

Það væri svo gott ef Michael gæti sagt allar þessar sögur frá þessum tíma
- Corinna Schumacher

Schumacher og Jean Todt störfuðu náið saman og náðu mögnuðum árangri
Fréttablaðið/GettyImages

Það var í desember árið 2013 sem Schumacher lenti í skíða­slysi á Meribel fjalla­svæðinu í frönsku ölpunum þar sem hann hlaut alvarlega höfuðáverka. Síðan þá hefur lítið spurst um líðan hans.

Todt var spurður út í sam­band sitt við Michael Schumacher í heimildar­mynd Canal + og að sögn þýska miðilsins Bild hikaði Todt um stund, beit í vör sína og átti greini­lega erfitt með að tjá sig um Michael.

,,Michael er enn hluti af lífi mínu og mun alltaf vera hluti af lífi mínu, sama hver staðan er. Spurningin í dag er sú hvernig við getum notið okkar saman og hvernig ég get stutt við hann og fjöl­skyldu hans."

Í myndinni er einnig hægt að sjá Todt heim­sækja stað sem hann og Michael voru vanir að sækja saman á For­múlu 1 ferli hins síðar­nefnda, Ferrari veitinga­staðinn Ristorante Montana sem er stað­settur í heima­bæ Ferrari, Maranello.

Maurizio og Rosella eru eig­endur veitinga­staðarins og segja hann að ein­hverju leiti hafa verið "leyni­staður" Todt og Schumacher­s. Leyni­staður sem var þú lítil leynd yfir því yfir­leitt voru um 1500 manns að bíða eftir Todt og Schumacher enda stemningin fyrir Ferrari einstök á þessum slóðum.

Í heimildar­myndinni sést Todt yfir­gefa veitinga­staðinn og skilur við eig­endur þess með orðunum:

,,Ég segi Michael að ég hafi komið hingað," Rosella svarar honum þá og segir Todt að knúsa Michael frá sér. Todt segist lofa því og svarar: ,,Hann er alltaf mjög at­hugull."

Vildi að Michael gæti sagt frá þessu sjálfur

Corinna Schumacher, eigin­kona Michaels er einnig til við­tals í heimildar­mynd Canal + um Jean Todt þar sem hún segir vina­sam­band þeirra sér­stakt.

,,Sam­band þeirra fyrstu árin var mjög skemmti­legt. Þegar að straumarnir breytast og allt í einu getið þið ekki gert hlutina sem þið voruð vanir að gera, þegar að lífið er ekki bara frí lengur eða eitt­hvað sorg­legt gerist, þá sérðu í raun og veru hverjir eru vinir þínir."

Jean Todt sé einn af þessum vinum.

,,Það er gott fyrir Michael að vita að ein­hver eins og Jean Todt sé hér fyrir okkur þegar að upp koma spurningar. Að hann viti að við hlið okkar er ein­hver sem vill allt fyrir okkur gera án nokkurra skil­yrða. Það er gjöf."

Jean Todt hefur staðið þétt við bakið á Schumacher fjölskyldunni
Fréttablaðið/GettyImages

Þá minnist Corinna einnig tímans þegar að Schumacher gekk til liðs við Ferrari.

,,Ég man enn hvernig þetta at­vikaðist. Ég var úti í garðinum þegar að Michael kom til mín og spurði mig: 'Hvernig litist þér á það ef ég myndi ganga til liðs við Ferrari?'

Ég sagði honum að það yrði frá­bært ef það myndi gerast. Michael veit vel hverjum hann getur treyst og á þessum tíma hafði hann átt góð sam­skipti við Jean Todt. Hann sagði mér að hann vildi vinna að ein­hverju með honum."

Þá greinir Bild frá um­mælum Corinnu í myndinni sem gefa vís­bendingar um stöðuna á Michael Schumacher:

,,Það væri svo gott ef Michael gæti sagt allar þessar sögur frá þessum tíma vegna þess að ég var ekki alltaf á staðnum."