Bruno Fernandes, leikmaður portúgalska landsliðsins og Manchester United, segist virða ákvörðun félaga síns, Cristiano Ronaldo, um að yfirgefa Rauðu djöflanna. Hann segir það hafa verið heiður að spila með landa sínum á Old Trafford.

Það var staðfest í gær að hinn 37 ára gamli Ronaldo hefði yfirgefið United. Hann hafði í raun brennt allar brýr að baki sér hjá félaginu eftir að hafa farið í umdeilt viðtal við Piers Morgan nýlega.

Fernandes segir einbeitingu leikmanna vera á Heimsmeistaramótinu í Katar með portúgalska landsliðinu.

„Við vitum hvað portúgalska landsliðið er mikilvægt fyrir Cristiano. Það er draumur okkar allra að spila þar. Einbeiting okkar er hundrað prósent á landsliðinu og við vitum allir hvað þarf að gera.“

GettyImages

Hann kippir sér ekki of mikið upp við tíðndi gærdagsins af Ronaldo.

„Mér líður ekki illa yfir þessu. Það voru forréttindi að spila með Cristiano. Hann hefur alltaf veitt mér innblástur. Það var draumur að spila með honum en ekkert endist að eilífu.

Þetta var gott á meðan þetta entist en við þurfum að virða ákvörðun hans, sama hvort við séum sammála eða ekki,“ segir Fernandes.

„Stundum er erfitt að taka ákvarðanir en við verðum að gera það sem er best fyrir okkar fjölskyldur. “