Fjallað hefur verið um það í breskum miðlum að Brendan Rodgers sé nú líklegastur til þess að taka við af Ole Gunnar Solskjær, núverandi knattspyrnustjóra Manchester United, fari svo að Norðmaðurinn verði rekinn.

Solskjær er undir mikilli pressu í augnablikinu en Brendan vildi lítið tjá sig um sögusagnir á blaðamannafundi Leicester City í dag.

,,Það ber ekki vot af mikilli virðingu að spyrja mig þessarar spurningar þegar að það er mjög góður knattspyrnustjóri að störfum hjá félaginu. Í öðru lagi get ég ekki kommentað á þetta því þetta er ekki raunveruleikinn," sagði Brendan Rodgers á blaðamannafundi í dag. ,,Ég tel mig vera á réttum stað, á réttum tíma með rétta fólkið í kringum mig."

Rodgers tók við stjórnartaumunum hjá Leicester í febrúar árið 2019. Undanfarin tvö tímabil hefur liðið tryggt sér Evrópusæti undir hans stjórn.

Manchester United situr í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar um þessar stundir með 17 stig eftir 11 leiki. Leicester er í því tólfta með fimmtán stig.