Mason Greenwood, leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United hefur gefið frá sér yfirlýsingu í kjölfar frétta sem bárust fyrr í dag þar sem greint var frá því að ákærur á hendur honum, sem sneru meðal annars að meintri tilraun til nauðgunar, líkamsárásar og stjórnandi hegðunar á hendur fyrrum kærustu hans, hefðu verið látnar niður falla.
Í yfirlýsingu frá Greenwood sem birt hefur verið í fjölmiðlum á Bretlandseyjum segist Greenwood vera létt yfir niðurstöðu dagsins.
,,Mér er létt yfir því að þessu skuli nú loks vera lokið og vil þakka fjölskyldu minni, ástvinum og vinum fyrir þeirra stuðning. Ég mun ekki tjá mig frekar að svo stöddu,“ sagði í fremur stuttorðri yfirlýsingu frá leikmanninum.
Fyrr í dag gaf félagslið Greenwood, Manchester United frá sér yfirlýsingu þar sem greint var frá því að nú færi af stað rannsókn innan félagsins og út frá henni yrðu næstu skref hvað leikmanninn varðar ákveðin.
Greenwood mun því ekki æfa né spila með Manchester United á næstunni.
Hann hefur ekki spilað fótbolta í meira en ár í kjölfar þess að hann var ákærður fyrir tilraun til nauðgunar, stjórnandi hegðun og líkamsárás, allt gegn fyrrverandi kærustu sinni Harriet Robson.