Mason Greenwood, leik­­maður enska úr­­vals­­deildar­­fé­lagsins Manchester United hefur gefið frá sér yfir­­­lýsingu í kjöl­far frétta sem bárust fyrr í dag þar sem greint var frá því að á­kærur á hendur honum, sem sneru meðal annars að meintri til­­raun til nauðgunar, líkams­­á­rásar og stjórnandi hegðunar á hendur fyrrum kærustu hans, hefðu verið látnar niður falla.

Í yfir­­­lýsingu frá Greenwood sem birt hefur verið í fjöl­­miðlum á Bret­lands­eyjum segist Greenwood vera létt yfir niður­­­stöðu dagsins.

,,Mér er létt yfir því að þessu skuli nú loks vera lokið og vil þakka fjöl­­skyldu minni, ást­vinum og vinum fyrir þeirra stuðning. Ég mun ekki tjá mig frekar að svo stöddu,“ sagði í fremur stutt­orðri yfir­­­lýsingu frá leik­manninum.

Fyrr í dag gaf fé­lags­lið Greenwood, Manchester United frá sér yfir­­­lýsingu þar sem greint var frá því að nú færi af stað rann­­sókn innan fé­lagsins og út frá henni yrðu næstu skref hvað leik­manninn varðar á­­kveðin.

Greenwood mun því ekki æfa né spila með Manchester United á næstunni.

Hann hefur ekki spilað fót­­bolta í meira en ár í kjöl­far þess að hann var á­kærður fyrir til­­raun til nauðgunar, stjórnandi hegðun og líkams­­á­rás, allt gegn fyrr­verandi kærustu sinni Harriet Rob­­son.