Lítið hefur spurst til Mason Greenwood, sóknarmanns Manchester United síðan að hann var handtekinn fyrir yfir hálfu ári síðan. Þessi ungi leikmaður var einn af björtustu vonum Manchester United sem og enska landsliðsins en nú er hann laus gegn tryggingu og bíður eftir því að næstu skref á máli hans verði ákveðin.

Fjallað er um mál Mason Greenwood á vefmiðli The Mirror í dag. Hann var handtekinn í janúar grunaður um kynferðisbrot, heimilsofbeldi og líflátshótanir í garð fyrrum kærustu sinnar Harriet Robson. Málið komst á flug þegar að Harriet birti myndir á samfélagsmiðlum sínum. Myndirnar voru af henni með sprungna vör auk annarra áverka og við myndirnar skrifaði hún að það væri svona sem Mason Greenwood kæmi fram við hana.

Manchester United spilar sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni undir stjórn nýja knattspyrnustjórans Erik ten Hag á sunnudaginn næstkomandi. Greenwood er hvergi nærri, skiljanlega. Hann hefur ekkert æft né spilað með liðnu síðan ásakanirnar litu dagsins ljós, hefur misst styrktaraðila sína og vörur merktar honum hafa verið fjarlægðar af heimasíðu sem og búð Manchester United á Old Trafford.

,,Lagaákvæði setja okkur skorður um það sem hægt er að fjalla um þar til hann verður annað hvort ákærður, réttarhöld hefjast eða honum verður sleppt. Núverandi staða er pattstaða sem virðist gagnast fáum. Lögreglan í Greater Manchester hefur ekkert tjáð sig um framganga rannsóknar og talsmaður lögreglunar segir hana hafa tekið ákvörðun um að veita ekki upplýsingar um það hvort lausn gegn tryggingu verði framlengd vegna reynslu af því í sambærilegum málum," segir í frétt The Mirror um málið.

Það eina sem stendur eftir um Mason Greenwood á heimasíðu Manchester United er prófíll um leikmanninn: ,,Spennandi sóknarmaður sem hefur verið langt á undan áætlun hvað varðar þróun hans sem knattspyrnumaður."