Valskonur unnu tíunda leik sinn í röð í Dominos-deild kvenna þegar þær tóku á móti Stjörnunni í dag en Keflavík og KR unnu sína leiki á sama tíma og halda tveggja stiga forskoti á toppi deildarinnar.

Það stefnir allt í harða baráttu á milli þessara þriggja liða um deildarmeistaratitilinn þegar átta umferðir eru eftir af mótinu.

Valsliðið lék fantagóða vörn í dag og hélt Stjörnunni í tuttugu stigum í fyrri hálfleik sem skilaði þeim tuttugu stiga forskoti og úrslitin komin á hreint.

Spennan var heldur meiri þegar Keflavík mætti botnlið Breiðabliks í Kópavogi þar sem Blikar leiddu fyrir lokaleikhlutann en Keflavík tókst að landa sigrinum á lokametrunum.

Blikar eru því búnar að tapa ellefu leikjum í röð.

KR vann fyrr í dag sannfærandi sigur á Borgnesingum þegar Skallagrímur heimsótti KR en gestunum úr Borgarnesi tókst að laga stöðuna og koma muninum niður í sextán stig í lokaleikhlutanum.

Þá mistókst Snæfelli að nýta sér tap Stjörnunnar til að ná forskoti á Garðbæinga í baráttunni um fjórða sætið í dag þegar Snæfell tapaði 67-73 gegn Haukum í Hafnarfirði.