Tíu rauð spjöld fóru á loft í leik Vitória og Bahia í Brasilíu í gær.

Dómari leiksins lyfti gula spjaldinu sex sinnum í fyrri hálfleik. Í þeim seinni fór svo allt úr böndunum.

Vitória var 1-0 yfir í hálfleik en eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik jafnaði Vinicius metin fyrir Bahia úr vítaspyrnu.

Hann fagnaði með því að dansa fyrir framan stuðningsmenn heimaliðsins. Og það hleypti illu blóði í leikmenn Vitória.

Slagsmál brutust út og dómarinn rak þrjá leikmenn úr hvoru liði út af og sýndi auk þess tveimur varamönnum Bahia rauða spjaldið.

Þegar 12 mínútur voru til leiksloka varð Uillian fjórði leikmaður Vitória til að fá reisupassann. Samherji hans, Bruno, var ekki sáttur við dóminn og sparkaði boltanum í burtu.

Fyrir það fékk hann sitt annað gula spjald og þar með rautt. Bruno varð þar með fimmti leikmaður Vitoría til að fá rauða spjaldið og dómarinn þurfti því að flauta leikinn af. Að minnsta kosti sjö þurfa að vera inn á liði í fótboltaleik.

Íþróttadómstóll Brasilíu mun taka málið fyrir en líklegast þykir að Bahia verði dæmdur 3-0 sigur.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af slagsmálunum.