Íslenska kvennalandsliðið er það ellefta til þrettánda líklegasta til að standa uppi sem sigurvegari í lokakeppni Evrópumótsins á Englandi í sumar, ásamt Austurríki og Belgíu. Þetta segir spálíkan Bet365, stærstu veðmálasíðu heims. Þar er stuðullinn á að þessi þrjú lið sigri mótið 67 eins og staðan er í dag.

EM hefst á morgun en íslenska liðið hefur leik á sunnudag. Þá verður andstæðingurinn einmitt Belgía. Frakkar og Ítalir eru einnig í riðli með stelpunum okkar. Samkvæmt spálíkaninu verður Frakkland efst í riðlinum og fylgja Ítalir þeim í 8-liða úrslit. Stuðullinn á að íslenska liðið komist upp úr riðlinum er 3,50 en 1,28 á að liðið falli úr leik í riðlakeppninni.

Spánn er þá talið líklegasta liðið til að sigra mótið. Stuðullinn á að það gerist er 4,50. England kemur þar á eftir með stuðulinn 5,50. Þriðja líklegasta liðið til að sigra er Frakkland með stuðulinn 6,50.

Sem fyrr segir mætir Ísland Belgíu á sunnudag. Svo tekur við leikur gegn Ítölum þann 14. júlí. Stelpurnar mæta svo Frökkum í lokaleik riðilsins þann 18. júlí.