Paris Saint Germain er úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir 1-2 tap gegn Real Madrid í seinni leik liðanna í 16-liða úrslitum en samanlagt vann Madrídarliðið 5-2 sigur í einvíginu.

Það þurfti allt að falla með Parísarliðinu ef þeir ætluðu sér að slá út ríkjandi meistarana en Neymar var hvergi sjáanlegur í liði heimamanna vegna meiðsla.

Cristiano Ronaldo kom gestunum yfir á 51. mínútu en stuttu síðar fékk Marco Verratti annað gula spjald sitt fyrir kjaftbrúk. Edinson Cavani kom Parísarmönnum aftur inn í leikinn en Casemiro gerði út um einvígið tíu mínútum fyrir leikslok.

Real Madrid komst því í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu níunda árið í röð en rándýrt lið PSG fellur úr leik í 16-liða úrslitum, annað árið í röð.

Á sama tíma fór fram leikur Liverpool og Porto á Anfield þar sem leiknum lauk með markalausu jafntefli. Eftir 5-0 sigur Liverpool í fyrri leiknum var aðeins um formsatriði að klára einvígið.

Jurgen Klopp tefldi fram nokkuð sterku byrjunarliði en dreifði álaginu vel og gat hvílt nokkra lykilleikmenn liðsins fyrir stórleikinn gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Sadio Mane komst nálægt því að skora í fyrri hálfleik þegar skot hans fór í stöngina en í seinni hálfleik var Danny Ings nálægt því að brjóta ísinn en Iker Casillas varði vel í marki Porto.