Danski framherjinn Patrick Pederseen hefur reynst Valsmönnum mikill happafengur, en hann er markahæsti leikmaður Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á yfirstandandi leiktíð með 16 mörk. Í ljósi vaskrar framgöngu Pedersen fannst Fréttablaðinu tilvalið að rifja upp tíu bestu erlendu leikmennina sem leikið hafa í efstu deild á Íslandi. 

Til þess að velja þessa leikmenn voru fengnir álitsgjafar sem nefndu þá þrjá leikmenn sem þeim fannst standa upp úr af þeim erlendu leikmönnum sem leikið hafa hér á landi. Þeir leikmenn sem fengu flest atkvæði komust svo á listann sem sjá má hér að neðan.

Álitsgjafar Fréttablaðsins eru eftirfarandi: Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Breðabliks, Willum Þór Þórsson, alþingismaður, Magnús Gylfason, stjórnarmaður hjá KSÍ, Daði Guðmundsson, fyrrverandi fyrirliði Fram, Arnar Bergmann Gunnlaugsson, aðstoðarþjálfari Víkings, Kristján Jónsson, blaðamaður hjá Morgunblaðinu, Jökull Ingason Elísabetarson, leikmaður Augnabliks, Kristján Finnbogi Finnbogason, markmannsþjálfari KR, Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Þróttar Reykjavíkur, Sigurður Ragnar Eyjólfsson, knattspyrnuþjálfari, Sigurvin Ólafsson, þjálfari KV og Hrefnkell Freyr Ágústsson, knattspyrnuþjálfari. 

Luka Lúkas Kostic

Luka Lúkas Kostic er króatískur varnarmaður sem kom hingað til lands fyrst um sinn til þess að spila með Þór. Lúka söðlaði svo um og var lykilleikmaður í ógnarsterku liði ÍA sem varð Íslandsmeistari árið 1992 og Íslands- og bikarmeistari árið 1993.

Hann var síðan spilandi þjálfari liðsins þegar liðið laut í lægra haldi fyrir KR í bikarúrslitum árið 1994. Lúka er lýst sem sterkum varnarmanni og miklum leiðtoga af þeim sem völdu hann í þessari kosningu. 

MIlan Stefán Jankovic

Milan Stefán Jankovic er öflugur varnarmaður sem kom hingað til lands frá Bosníu og Hersegóveníu og lék með Grindavík við góðan orðstír frá 1992 til 1998. 

Hann stýrði vörn Grindavíkur af miklum myndarbrag, en þegar hann kom til liðsins var liðið í næstefstu deild þegar hann kom til liðsins. Þremur árum eftir að hann kom var liðið komið í efstu deild og festi sig í sessi þar, ekki síst vegna frammistöðu hans í hjarta varnarinnar hjá liðinu. 

David Winnie

Skoski varnarmaðurinn David Winnie reyndist KR-ingum gulls ígildi þegar hann lék með KR sumarin 1998 og 1999. Hann batt saman vörn KR-liðsins, en hann myndaði einkar traust miðvarðarpar með Þormóði Egilsssyni. 

KR var hársbreidd frá því að verða Íslandsmeistari árið 1998 og rauf svo 31 árs bið eftir Íslandsmeistaratitlinum árið eftir og varð þar að auki bikarmeistari. Þá lék hann átta leiki þeagr KR varði Íslandsmeistaratitil sinn árið 2000. KR hélt hreinu í 19 í 37 af þeim deildarleikjum sem Skotinn spilaði.

Tommy Nielsen

Forráðamenn FH gátu ekki gert sér í hugarlund það blómaskeið sem í vændum var þegar þeir undirbjuggu sig fyrir Íslandsmótið árið 2003. Ein af ástæðum þess að Hafnarfjarðarliðið breyttist úr miðlunglsiði í efstu deild í stórveldi næstu tvo áratugina var tilkoma danska varnarmannsins Tommy Nielsen

Tommy var með afbragðs leikskilning og mikla stjórnunarhæfileikar. Þá var hann einkar góður í að koma boltanum frá sér úr vörn FH-liðsins. Á þeim níu árum sem Tommy lék með FH varð hann fimm sinnum Íslandsmeistari með FH og tvívegis bikarmeistari.

Allan Borgvardt

Allan Borgvardt kom til FH á sama tima og Tommy Nielsen, en hann sá um að leiða sóknarleik liðsins á fyrsta hlutanum á blómaskeiði liðsins frá 2003 til dagsins í dag. FH tók skrefið fram á við með Borgvardt í framlínunni og liðið varð í öðru sæti á hans fyrsta tímabili hjá liðinu og varð svo Íslandsmeistari árin 2004 og 2005. 

Danski framherjinn skoraði átta mörk í 16 leikjum árið 2003, átta mörk í 12 leikjum sumarið 2004 og sprakk svo út árið 2005 þar sem hann setti 13 mörk í 15 leikjum í deild og fjögur mörk í þremur leikjum í bikar. 

Zoran Miljkovic

Serbneski varnarmaðurinn Zoran Miljkovic gekk til liðs við sterkt lið Skagamanna fyrir keppnistímabilið 1994 og varð Íslandsmeistari með liðinu 1994, 1995 og 1996. Þá varð hann bikarmeistari sumarið 1996. Hann var afar harður í horn að taka og sterkur í návígjum. 

Zoran hélt til Vestmannaeyja um mitt sumar 1997 og varð Íslandsmeistari með liðinu um haustið. ÍBV varð tvöfaldur meistari með serbneska varnarmanninn í vörninni sumarið 1998. Eyjamenn héldu 18 sinnum hreinu í þeim 39 deildarleikjum sem hann spilaði fyrir liðið.

Mihaljo Bibercic

Annar Serbi sem reyndist Skagaliðinu mjög vel í upphafi 19. áratugar síðustu aldar. Mihaljo Bibercic kom til ÍA fyrir leiktíðina 1993 og lét strax til sín taka. Hann skoraði 13 mörk í 18 deildarleikjum og fimm mörk í fjórum bikarleikjum þegar liðið varð tvöfaldur meistari það tímabilið. 

Bibercic hélt uppteknum hætti sumarið eftir og skoraði einu marki meira í deildinni þegar liðið varði titilinn. Serbneski framherjinn se var ofboðslega lunkinn við að koma sér í marktækifæri fór í Vesturbæinn árið 1995 og skoraði 13 mörk í 17 leikjum fyrir KR og annað mark liðsins í úrslitaleik þegar liðið varð bikarmeistari um haustið. 

Sinisa Kekic

Annar Serbi sem litaði deildina fallegum litum. Kekic lék með Grinavík í tíu ár frá 1996 til 2006 þegar ferill hann reis sem hæst hér á landi. Hann var tæknilega góður sóknartengiliður sem var iðinn við að skapa mörk fyrir samherja sína. 

Þó svo að hann hafi ekki verið snöggur þá bætti hann það upp með frábærri boltatækni, góðum sendingum og eiginleika til þess að finna glufur á vörnum andstæðinganna. 

Alexander Scholz

Belgískur gullmoli sem rak á fjörur forráðamanna Stjörnunnar eftir að hafa veið á bakpokaferðalagi í Indlandi. Alexander Scholz hafði leikið fyrir dönsku U-19 og U-21 ára landsliðin en fékk svo leið á fótbolta og hélt í heimsreisu. 

Vorið 2012 fékk hann svo löngun til þess að snúa aftur inn á knattspyrnuvöllinn og Henrik Bödker sannfærði hann um að koma í Garðabæinn. Hann er tæknilega góður leikmaður og reyndist Stjörnunni vel. Scholz fór með liðinu í bikarúrslit sumarið 2012 þar sem liðið tapaði fyrir KR. 

Patrick Pedersen

Síðastur en ekki sístur er danski framherjinn Patrick Pedersen sem virðist geta skorað að vild fyrir Valsliðið þessa stundina. Patrick kom til Vals árið 2013 og hefur vaxið ásmegin síðan þá. Hann varð bikarmeistari með Val árið 2015, en hann gekk í kjölfarið í raðir norska liðsins Viking Stavanger. 

Patrick kom svo aftur á Hlíðarenda um mitt sumar í fyrra og aðstoðaði Valsliðið að sigla Íslandsmeistaratitlinum í höfn síðasta haust. Daninn er svo að spila sitt besta keppnistímabil á yfirstandandi leiktið, en hann hefur skorað 16 mörk í 19 deildarleikjum fyrir Val sem trónir á toppi deildarinar. Það er raunhæfur möguleiki á að hann jafni eða bæti markametið í efstu deild í síðustu tveimur leikjum liðsins í deildinni.