Í dag eru tíu ár liðin síðan Snæfell varð Íslandsmeistari í körfubolta í fyrsta sinn með 105-69 sigri á Keflavík í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Snæfell vann tvöfalt þetta árið því fyrr um veturinn hafði liðið unnið bikarmeistaratitilinn í annað sinn í sögu félagsins.

Snæfell lenti í sjötta sæti deildarinnar þetta árið og byrjaði úrslitakeppnina á því að senda Grindavík í sumarfrí með 2-0 sigri í átta liða úrslitunum.

Þegar komið var í undanúrslitin voru það KR-ingar sem stóðu í vegi Snæfells.

Snæfell vann einvígið 3-2 þar sem allir leikirnir unnust á útivelli og var Snæfell því búið að senda deildarmeistarana og ríkjandi Íslandsmeistarana í sumarfrí.

Að vinna á útivelli var eitthvað sem leikmenn Snæfells þekktu vel enda vann Snæfell sex af sjö leikjum sínum á útivelli í úrslitakeppninni þetta árið.

Sigurður Þorvaldsson og Emil Þór Jóhannesson faðma bikarinn í búningsklefanum.
fréttablaðið/daníel

Það sem gæti hafa hrætt leikmenn Snæfells í aðdraganda einvígisins gegn Keflavík var að þetta var í fjórða sinn sem þessi lið mættust í úrslitum Íslandsmótsins á sjö árum.

Til þessa hafði Keflavík unnið þrjár fyrstu viðureignirnar nokkuð sannfærandi og hafði Snæfell aðeins unnið tvo leiki af ellefu.

Það var engan hroll að finna í leikmönnum Snæfells þrátt fyrir að vera komnir í oddaleik. Frá fyrstu mínútu voru gestirnir grimmari og leiddu 37-15 að fyrsta leikhluta loknum.

Leikmenn Snæfells fagna að leikslokum.
fréttablaðið/daníel

Keflvíkingar réðu ekkert við sóknarleik Snæfells sem hittu úr 11 af fyrstu tólf skotum sínum og náðu tuttugu stiga forskoti þegar fimm mínútur voru liðnar af leiknum.

Eftir að hafa verið 26 stigum undir í hálfleik tókst Keflavík aðeins að laga stöðuna í þriðja leikhluta áður en Snæfell setti aftur í gír og keyrði yfir andstæðinga sína í lokaleikhlutanum.

Enginn lék betur en Hlynur Bæringsson sem varð þarna Íslandsmeistari í fyrsta sinn eftir að hafa þurft að horfa á eftir titlinum þrisvar.

Hlynur var með 21 stig og fimmtán fráköst í leiknum og var því bæði stiga- og frákastahæstur á vellinum.

Ingi Þór tók við liðinu fyrir tímabilið og færði Snæfelli fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn.
fréttablaðið/daníel

Þetta var fyrsta tímabil liðsins undir stjórn Inga Þórs Steinþórssonar sem þjálfar í dag KR og náði Snæfell að vinna tvöfalt strax á fyrsta ári undir hans stjórn.

„Þetta var þvílík frammistaða og hjá öllu liðinu. Vörnin í byrjun var klikkuð og það voru allir leikmenn á tánum,“ sagði Ingi Þór í samtali við Fréttablaðið á þessum tíma. . „Þetta var ótrúlegt sætt. Við erum búnir að brjóta alveg svakalega íshellu. Við þurftum eitthvað sérstakt til að klára titilinn með því að fara erfiðustu leiðina sem hugsast gat.“

Ingi átti eftir að stýra Snæfelli næstu átta árin áður en hann hætti störfum sumarið 2018 til að taka við uppeldisfélagi sínu KR.

Hann var einnig þjálfarinn þegar kvennalið Snæfells varð Íslandsmeistari þrjú ár í röð,, 2014, 2015 og 2016 þegar liðið vann tvöfalt.