Í dag eru tíu ár síðan Portsmouth varð fyrst allra liða í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til að vera svipt stigum vegna fjárhagsörðugleika.

Enska úrvalsdeildin ákvað að taka níu stig af Portsmouth sem var fyrir í neðsta sæti deildarinnar og var engin leið að bjarga félaginu eftir það.

Fjárhagsvandræði félagsins komu ekki í veg fyrir að Portsmouth kæmist í úrslit enska bikarsins í annað sinn á þremur árum en í þetta skiptið þurfti Portsmouth að horfa á eftir titlinum til Chelsea.

Alls yfirgáfu hátt í þrjátíu leikmenn félagið á þessu tímabili, þar á meðal leikmenn á borð við Glen Johnson, Peter Crouch, Sylvian Distin, Sol Campbell, Younes Kaboul og Niko Kranjar sem höfðu leikið stórt hlutverk í liðinu undanfarin ár.

Hermann í baráttunni við Antonio Valencia
fréttablaðið/getty

Um haustið keypti Sulaiman Al-Fahim félagið af Alexandre Gaydamak og voru stuðningsmenn Portsmouth bjartsýnir enda hafði Al Fahim komið að kaupum á Manchester City stuttu áður.

Það reyndist ekki standast væntingar stuðningsmannana því stjórnartíð Al-Fahim entist aðeins fjörutíu daga áður en Ali Al-Faraj keypti félagið.

Nokkrum mánuðum seinna bárust fréttir af því að Al-Faraj væri ekki að borga skuldir sínar og eignaðist Balram Chainrai þá skyndilega félagið en Al-Faraj skuldaði honum fyrir kaupin á félaginu.

Chainrai fór ekki leynt með það að hann vildi losna við félagið sem fyrst en stuttu seinna óskaði félagið eftir gjaldþrotaskiptum.

Ísraelski knattspyrnustjórinn Avram Grant kom Portsmouth alla leiðina í úrslit enska bikarsins þrátt fyrir vandræðin utan vallar.
fréttablaðið/getty

Þá var löngu vitað að félagið væri ekki að standa við skuldbindingar sínar og bárust fyrst fréttir af því að félagið ætti erfitt með að greiða starfsmönnum sínum og leikmönnum laun í október.

Fjárhagsvandræði félagsins gerðu það að verkum að enska úrvalsdeildin bannaði félaginu að kaupa leikmenn í janúar enda skuldaði Portsmouth fjölmörgum félögum pening.

Stjórn enska knattspyrnusambandsins nýtti tækifærið og tók sjónvarpstekjurnar sem Portsmouth átti rétt á og greiddi félögum sem Portsmouth skuldaði.

Í janúar var félagið of seint að greiða laun fjórða mjánuðinn í röð sem gerði það að verkum að leikmenn áttu rétt á því að rifta samningi sínum.

Þrátt fyrir það gaf enska úrvalsdeildin eftir og leyfði Portsmouth að sækja leikmenn undir lok janúargluggans á sama tíma og vefsíða félagsins var tekin niður vegna skulda.

Nokkrum dögum síðar gat félagið enn á ný ekki greitt laun og óskaði félagið því eftir gjaldþrotaskiptum í febrúar í neðsta sæti deildarinnar, fimm stigum frá næsta liði.

Eftir að enska úrvalsdeildin tók níu stig af Portsmouth var félagið með tíu stig, fjórtán stigum frá næsta liði og þurfti að vinna sex leiki af næstu sjö til að eiga tölfræðilegan möguleika á að halda sér uppi.

Félagið nældi í tíu stig til viðbótar en féll í byrjun apríl eftir sjö ára dvöl í efstu deild.

Fratton Park, heimavöllur Portsmouth
fréttablaðið/getty

Félagið var keypt af rússneska auðjöfrinum Vladimir Antonov um sumarið en það reyndist ekkert heillaskref. Síðar um árið var handtökuskipun gefin út á Antonov af hálfu litháenskra stjórnvalda.

Vorið 2012 fór Portsmouth aftur í gjaldþrotaskipti og var í þetta skiptið svipt tíu stigum og féll félagið úr Championship-deildinni stuttu síðar.

Við það yfirgaf allur leikmannahópurinn félagið. Portsmouth var svipt tíu stigum í þriðja sinn rétt fyrir jólin 2012 og féll niður í fjórðu deildina um vorið eftir að hafa leikið 23 leiki í röð án sigurs.

Litlu mátti muna að Portsmouth félli úr fjórðu deildinni í utandeildina en slapp fyrir horn. Á sama tíma tókst félaginu að greiða upp skuldirnar eftir að stuðningsmenn Portsmouth keyptu félagið.

Í dag er félagið í þriðju deild (e. League one), í eigu fjárfestingafélagsins bandaríska auðkýfsins Michael Eisner og eru því vonandi bjartari tímar framundan fyrir hið sögufræga félag.