Í dag eru tíu ár liðin síðan Tiger Woods fannst sofandi undir stýri nokkrum dögum eftir að bandarískir fjölmiðlar fóru að fjalla um framhjáhald Tiger.

Undir lok nóvember fyrir tíu árum síðan var greint frá því að Tiger hafi átt í ástarsambandi við Rachel Uchitel í New York sem neitaði sögunum. Nokkrum dögum seinna stigu fleiri konur fram og sögðust hafa átt í sambandi við Tiger.

Nágrannar Tiger komu að honum meðvitundarlausum á jörðinni og sagðist Elin Nordegren, þáverandi eiginkona Tiger að hún hefði notað golfkylfu til að brjóta rúðu við það að koma manninum sínum út úr bílnum.

Sögusagnir fóru á loft um að Elin hefði ráðist á hann þegar hún komst að framhjáhaldi Tiger og elt hann út úr húsinu með golfkylfuna að vopni enda virtist Tiger hafa orðið fyrir árás en Tiger neitaði þessari sögu seinna meir.

Bíllinn sem Tiger keyrði umrætt kvöld
fréttablaðið/getty

Tiger hafði keyrt á brunahana, tré og grindverk í götunni við heimili sitt en lögregluþjónninn sem kom að Tiger greindi síðar frá því að honum hefði verið meinað að taka blóðsýni frá Tiger.

Þá komu eiginkona Tiger og umboðsmaður í veg fyrir að lögregluyfirvöld gætu spurt Tiger út í áreksturinn en hann sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann baðst afsökunar.

Kylfingurinn gaf ekki kost á sér í næstu mótum, lýsti yfir að hann hefði verið ótrúr konu sinni og baðst afsökunar í beinni útsendingu. Þá fór hann í meðferð og sneri ekki aftur inn á völlinn fyrr en fimm mánuðum seinna.

Stuttu eftir áreksturinn og fréttirnar af framhjáhaldi Tiger tilkynntu margir styrktaraðilar að þau myndu binda enda á samstarf sitt við Tiger sem var þá ein stærsta stjarna íþróttaheimsins með samninga við Gatorade, General Motors, Gillette, Tag Heuer og AT&T.

Þá skildi Nordegren við Tiger um sumarið 2010, tæpu ári eftir að þau eignuðust annað barn sitt saman.

Þetta hafði áhrif á Tiger innan vallar sem vann ekkert mót árið 2010 og náði sér í raun ekki aftur á strik fyrr en undir lok árs 2012 en á sama tíma var hann að berjast við erfið meiðsli.