Titilvörn Manchester City er að fara í súginn en í dag mistókst City að vinna Crystal Palace á heimavelli sem þýðir að Liverpool gæti náð nítján stiga forskoti.

Liverpool mætir Manchester United á morgun og er með þrettán stiga forskot á City ásamt því að eiga tvo leiki inni.

Aguero virtist hafa tryggt City sigurinn með tveimur mörkum undir lokin en Fernandinho skoraði sjálfsmark á lokasekúndum leiksins sem færði Palace stig.

Jafnteflin voru víða í enska boltanum því fjórum leikum dagsins hefur lokið með jafntefli. Arsenal náði aðeins stigi á heimavelli gegn Sheffield United og Everton krækti í stig gegn West Ham án Gylfa Þórs Sigurðssonar.

Úlfarnir lentu 0-2 undir gegn Dýrlingunum en náðu að snúa leiknum sér í hag á meðan Norwich vann lífsnauðsynlegan sigur á Bournemouth þar sem tvö rauð spjöld fóru á loft.