Grótta og Fylkir hafa komist að samkomulagi um félagaskipti markvarðarins efnilega Tinnu Brár Magnúsdóttur. Tinna Brá gerir þriggja ára samning við Árbæinga sem höfnuðu í þriðja sæti í úrvalsdeildinni síðasta sumar.

Tinna Brá, sem er uppalin hjá Gróttu, er fædd árið 2004 en hún stóð milli stanganna síðasta sumar í frumraun Gróttu í næstefstu deild. Hún hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið alls 24 meistaraflokksleiki í deild og bikar með Gróttu, en hún hefur að auki leikið fyrir U-15 og U-17 ára lið Íslands.

„Við erum virkilega ánægð með að fá Tinnu Brá til liðs við okkur. Tinna er gríðarlega spennandi og efnilegur markvörður sem sýndi það með frammistöðu sinni síðasta sumar með Gróttu að hún er tilbúin í næsta skref og smellpassar inn í það metnaðarfulla umhverfi sem við viljum að sé í kringum Fylkisliðið. Við væntum mikils af henni á komandi árum og erum spennt fyrir framhaldinu,“ segir Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, um nýjasta leikmann sinn.

„Það er alltaf erfitt að missa góða leikmenn og það er ljóst að nú erum við komin í markmannsleit. Fyrst og fremst erum við þó stolt af Tinnu Brá. Hún hefur bætt sig mikið síðustu misseri og hefur framúrskarandi hugarfar. Við í Gróttu hlökkum til að fylgjast með henni í Pepsi Max deildinni og óskum henni alls hins besta," segir Magnús Örn Helgason, annar þjálfara, Gróttuliðsins um vistaskipti markvarðarins.

Þessi félagaskipti ýta undir orðróm sem fram kom í Morgunblaðinu á dögunum þess efnis að Cecelia Rán Rúnarsdóttir, markvörður Fylkis, sé á leið til erlends félags á næstunni. Fram kom í frétt Morgunblaðsins að Everton hefði áhuga á að semja við Ceceliu Rán sem yrði svo lánuð til félags í Skandínavíu.

Tinna Brá hefur varið mark meistaraflokks Gróttu síðustu tvær leiktíðir en hún er 16 ára gömul.
Mynd/Grótta