Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handbolta, leikur í dag sinn 150. landsleik fyrir Íslands hönd. Aron lék sinn fyrsta A landsleik í Laugardalshöll 29. október 2008 gegn Belgíu undankeppni EM 2008 og skoraði í þeim leik tvö mörk.

Í þeim leik var núverandi þjálfarateymi íslenska liðsins Guðmundur Þórður Guðmundsson og Gunnar Magnússon, aðstoðarmaður hans, við stjórnvölinn.

Þessi frábæri leikstjórnandi, sem gengur til liðs við danska liðið Álaborg frá spænska stórveldinu Barcelona í sumar, hefur skorað 579 mörk í 149 landsleikjum.

Aron og strákarnir okkar eru í Tel Aviv þar sem þeir mæta Ísrael síðar í dag í undankeppni fyrir EM 2022. Leikurinn hefst klukkan 17.30 að íslenskum tíma.