Landsmót í golfhermum hefst á næstu dögum og verður það í fyrsta sinn sem mótið fer fram. Um er að ræða nýjung sem Golfsamband Íslands styður við sem hluta af öðru mótahaldi sambandsins en GKG er framkvæmdaraðili mótsins.

Allir þeir kylfingar sem eru félagsmenn í golfklúbbum innan vébanda GSÍ hafa þátttökurétt en hægt er að taka þátt í undankeppnum fyrir mótið hvar sem er svo lengi sem að þar sé staðsettur TrackMan golfhermir.

Fyrri undankeppni fyrir mótið hefst í dag og stendur yfir til 14. febrúar. Efstu 48 karla og efstu 24 konur komast áfram í seinni undankeppnina sem haldin verður 14.-15. mars næstkomandi.

Efstu 8 karlar og efstu 8 konur úr seinni undankeppninni komast síðan áfram á Landsmótið sem fer fram 20. mars í Íþróttamiðstöð GKG.

Veitt verða verðlaun fyrir efstu þrjú sætin í hvorum flokki auk þess sem sigurvegarar fá farandbikar.