„Þetta er ákveðin yfirlýsing um að það sé komið að tímamótum þegar kemur að andlegri heilsu afreksíþróttafólks.

Til margra ára hafa þau sett andlegu hliðina til hliðar til þess að freista þess að ná árangri,“ segir Richard Eirikur Taehtinen, aðjúnkt við sálfræðideild Háskólans á Akureyri, aðspurður út í fjölmiðlafárið og aðdraganda þess að Naomi Osaka, ein skærasta stjarna tennisíþróttarinnar, ákvað að draga sig úr leik á Opna franska meistaramótinu í tennis, einu af risamótunum fjórum í vikunni.

Osaka var á dögunum sektuð fyrir að neita að ræða við fjölmiðla í aðdraganda fyrsta leiks hennar á mótinu. Þegar Osaka var hótað brottrekstri ef hún myndi áfram neita að tala við fjölmiðla ákvað hún að hætta við frekari þátttöku á mótinu.

Osaka glímdi við kvíðaköst í kjölfar fjölmiðlaviðtala

Í yfirlýsingu á samskiptamiðlum Osaka kom fram að með ákvörðun sinni vildi hún færa sviðsljósið yfir á mótið sjálft í stað deilu hennar við mótshaldara.Osaka, sem hefur unnið fjóra risatitla á ferlinum og er aðeins 23 ára, greindi á sama tíma frá því að hún hefði glímt við þunglyndi undanfarin ár og því fylgdu oft kvíðaköst í aðdraganda viðtala við fjölmiðla.

Með því að sniðganga fjölmiðlaskyldu hafi hún ætlað sér að einbeita sér að mótinu og um leið vekja athygli á óþarfa regluverki um fjölmiðlaskyldu leikmanna. Að lokum tilkynnti Osaka að hún hefði ákveðið að taka sér stutt frí frá íþróttinni.

„Með þessu er Osaka að senda skilaboð um að hún setji eigin andlegu heilsu í forgang því annars geti hún ekki verið upp á sitt besta í mótum. Hún er ekki að leggja spaðann á hilluna heldur að setja fordæmi til framtíðar, ef kröfur mótshaldara stangast á við vilja keppenda.

Þetta hefur ekki verið auðveld ákvörðun og hefur vakið heilmikla athygli en ég tel nánast fullvíst að það hafa fleiri verið í sömu sporum en ekki tekið af skarið. Það voru strax fjölmargar stjörnur sem stigu fram og studdu við bakið á henni.“Richard, sem sérhæfir sig meðal annars í íþróttasálfræði, hefur rannsakað áhrif þunglyndis á íþróttafólk.

Afreksíþróttafólk getur glímt við vandamál við geðheilsu eins og aðrir

„Þetta minnir okkur á það að íþróttafólk getur glímt við geðheilsuvandamál, rétt eins og aðrir, þó að það fari ekkert endilega alltaf mikið fyrir því. Afreksíþróttafólk er ekki endilega með gott auga fyrir því að koma auga á einkenni geðheilsuvandamála hjá þeim sjálfum.

Um leið er ekki langt síðan það hófust rannsóknir á geðheilbrigði afreksíþróttafólks.Veikleikamerki hafa oft verið túlkuð sem merki um aumingjaskap sem má rekja til þessarar árangursdrifnu menningar íþróttanna að það eigi að harka af sér svona hluti.

Fyrir vikið fær almenningur oft þá upplifun að afreksfólk sé með meiri seiglu og geti betur tekist á við pressu. Það þarf gríðarlegan andlegan styrk til að komast í fremstu röð á heimsvísu en um leið eru stærstu stjörnurnar oft mjög sjálfsgagnrýnar.“

Hann tók undir að með tilkomu samskiptamiðla væri komið öðruvísi samband milli afreksíþróttafólks og aðdáendanna og hlutverk fjölmiðla í þessu samhengi ætti ef til vill eftir að breytast.

„Tíðarandinn í íþróttum er enn þá þannig að einstaklingar eigi að vera aðgengilegir og ef íþróttamenn eru ekki tilbúnir að taka þátt í því þykja þeir hrokafullir. Ég las grein þar sem Naomi var kölluð prinsessa vegna hegðunar sinnar en hvar annars staðar eru sömu kröfur gerðar um sambærilegt aðgengi að fólki?

Um leið fóru mótshaldarar ansi harkalega fram í gagnrýni sinni í hennar garð og hótunum en þeir virðast sleppa nokkuð vel út úr þessu máli. Það kom mér á óvart.“