Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handbolta, er sáttur við afraksturinn á keppnistímabilinu sem senn fer að ljúka. Lið hans, Lemgo, situr í sjöunda sæti þýsku efstu deildarinnar þegar þremur umferðum er ólokið en liðið hefur nú haft betur í sex síðustu leikjum sínum í deild og bikar.

Lemgo varð bikarmeistari í upphafi júnímánaðar eftir sigur gegn Melsungen, sem leikur undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar landsliðsþjálfara og er með landsliðslínumanninn Arnar Frey Arnarsson innanborðs. Bjarki Már segir að það hafi verið ákveðinn vendipunktur í hálfleik í leik liðsins gegn Kiel í undanúrslitum bikarkeppninnar.

„Við vorum sjö mörkum undir í hálfleik á móti Kiel í undanúrslitaleiknum. Þá tókum við þá ákvörðun að njóta þess að spila í bikarúrslitahelginni í Hamborg, sem er ávallt mikil upplifun að taka þátt í. Þar náðum við að fækka þeim mistökum sem við vorum að gera, slaka á og í kjölfarið gekk bara allt upp.

Sá sigur veitti okkur mikið sjálfstraust og við höfum ekki litið til baka síðan þá og það var aldrei spurning í bikarúrslitaleiknum hvorum megin sigurinn myndi enda. Svo höfum við unnið fjóra deildarleiki eftir bikarúrslitahelgina og erum í fínni stöðu í deildinni.

Árangurinn í deild og bikar er í raun framar þeim væntingum sem við höfðum fyrir tímabilið,“ segir Bjarki Már um tímabilið, en hann skoraði níu mörk þegar Lemgo lagði Erlangen að velli á þjóðhátíðardegi Íslendinga.

Vantar breidd til að ná lengra

Bjarki Már er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar með 221 mark í 35 leikjum en Ómar Ingi Magnússon, sem leikur með Magdeburg, er markahæstur með 247 mörk.

„Við erum með sterkt byrjunarlið og höfum spilað hörkuleiki við toppliðin í vetur. Leikmannahópurinn er hins vegar ekki nógu breiður til þess að gera sig meira gildandi í toppbaráttunni en við höfum gert á leiktíðinni.

Þar af leiðandi erum við sáttir við árangurinn og það er frábært að hafa tryggt sér sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð. Lemgo er gamalt stórveldi sem lenti í fjárhagsvandræðum um 2010 og hefur síðan þá verið að byggja upp sterkan grunn á nýjan leik,“ segir hornamaðurinn knái.

Bjarki hefur verið óstöðvandi úr horninu í herbúðum Lemgo
fréttablaðið/getty

Gamalt stórveldi að vakna

Lemgo hefur tvisvar sinnum orðið þýskur meistari, 1997 og 2003, varð bikarmeistari í fjórða skipti í júníbyrjun og unnið Evrópukeppni bikarhafa einu sinni og EHF-keppnina tvisvar sinnum, 2006 og 2010.

„Það verður gaman að fara í Evrópukeppni með liðinu en stuðningsmenn liðsins muna vel eftir því þegar liðinu gekk vel á þeim vettvangi frá um það bil 1990 til 2010.

Það er geggjað að finna fyrir því að stuðningsmennirnir séu farnir að mæta aftur eftir fjarveru vegna kórónaveirufaraldursins og það var til að mynda frábær tilfinning að fagna bikarmeistaratitlinum með okkar hörðustu stuðningsmönnum.

Við leikmenn fundum það sterkt að stuðningsmenn voru búnir að bíða lengi eftir titli eftir þurrkatíð hvað bikarsöfnun varðar. Nú eru spennandi tímar fram undan hjá félaginu og ég er ánægður með að hafa framlengt samning minn við félagið fyrr á þessu ári. Ég verð hjá Lemgo allavega eitt tímabil í viðbót og er spenntur fyrir næsta vetri,“ segir hann.

Mun deila viskunni í Árbænum

Bjarki Már ætlar svo að gefa af sér til uppeldisfélagsins, Fylkis, í sumarfríi sínu en hann mun stýra handboltaskóla hjá félaginu sem verður haldinn 5.-9. júlí næstkomandi.

„Góður vinur minn kom með þessa hugmynd og ég var bara meira en til í þetta. Ég er grjótharður Fylkismaður og þarna ólst ég upp. Það er mér því bæði ljúft og skylt að aðstoða við þjálfun þar. Skráning gengur vel en það eru enn nokkur pláss laus,“ segir Bjarki Már.

Landsliðsfólkið Björgvin Páll Gústavsson og Thea Imani Sturludóttir munu mæta í heimsókn í handboltaskólann. Heppnir einstaklingar í handboltaskólanum geta einnig unnið treyju frá Aroni Pálmarssyni og Janusi Daða Smárasyni