Tímabilið 2018-19 í ensku úrvalsdeildinni hefst með leik Manchester United og Leicester City á Old Trafford í kvöld. Leikurinn byrjar klukkan 19.00.

United endaði í 2. sæti deildarinnar á síðasta tímabili sem er besti árangur liðsins síðan Sir Alex Ferguson settist í helgan stein 2013. Þrátt fyrir það var United 19 stigum á eftir Englandsmeisturum Manchester City. United gerði lítið á félagaskiptamarkaðnum í sumar og José Mourinho hefur varla stokkið bros á undirbúningstímabilinu. Margir spá því að Portúgalinn verði farinn frá United áður en tímabilið er á enda.

City hafði gríðarlega mikla yfirburði á síðasta tímabil og setti ný viðmið, bæði í stigasöfnun og spilamennsku. Pep Guardiola er afar metnaðarfullur stjóri og slær ekkert af kröfunum þrátt fyrir frábært tímabil í fyrra.

Liverpool þykir líklegast til að veita City samkeppni um Englandsmeistaratitilinn. Rauði herinn hefur eytt liða mest í sumar, tæpum 160 milljónum punda, og leikmannahópurinn er stærri og sterkari en síðustu ár. Liverpool hefur ekki unnið titil síðan 2012 en stuðningsmenn liðsins vonast til þess að þeirri bið ljúki í vor.

Tottenham, sem hefur endað í einu af þremur efstu sætum deildarinnar undanfarin þrjú tímabil, er með sama lið og sama stjóra [Maur­icio Pochettino]. Chelsea og Arsenal eru hins vegar með nýja menn við stjórnvölinn og erfitt er að spá um gengi þeirra. 

Maurizio Sarri tók við Chelsea og hefur breytt áherslum þar á bæ. Evrópudeildarsérfræðingurinn Unai Emery er nýi maðurinn í brúnni hjá Arsenal. Hann tók við af Arsene Wenger sem hætti í vor eftir 22 ár við stjórnvölinn hjá Skyttunum.

Ísland á þrjá fulltrúa í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Gylfi Þór Sigurðsson er að hefja sitt annað tímabil með Everton sem er enn og aftur með nýjan stjóra [Marco Silva]. Meiri stöðugleiki er hjá Burnley sem Jóhann Berg Guðmundsson leikur með. Burnley kom liða mest á óvart á síðasta tímabili, endaði í 7. sæti og tryggði sér þátttökurétt í Evrópudeildinni.

Aron Einar Gunnarsson er svo hjá Cardiff City sem er nýliði í ensku úrvalsdeildinni. Flestir spá því að Cardiff fari beinustu leið niður í ­B-deildina aftur. Það ríkir öllu meiri bjartsýni hjá hinum nýliðunum, Wolves og Fulham, enda hafa þeir látið til sín taka á félagaskiptamarkaðnum í sumar.