Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir hefur ákveðið að láta staðar numið á þessu tímabili og mun því ekki taka þátt í HM í frjálsum íþróttum sem fer fram í Doha í vetur.

Þetta staðfesti Ásdís á Facebook-síðu sinni í dag og gefur til kynna að næsta tímabil verði hennar síðasta sem spjótkastari.

Í tilkynningunni segist Ásdís hafa tekið ákvörðun um að hætta við þáttöku á HM í ljósi þess að líkami hennar sé ekki á þeim stað sem hún ætlist til á leiðinni á HM eftir að hafa verið að glíma við erfið meiðsli í baki.

Þrátt fyrir það sé hún þakklát fyrir að hafa náð að keppa í ár eftir að hafa efast um framtíðaráhorf ferilsins fyrir ári síðan.

Hápunktar ársins voru að sögn tilkynningarinnar þegar Ásdís vann sænska meistaratitilinn í spjótkasti, þegar hún tók þátt í að koma Íslandi upp í aðra deild í liðakeppni frjálsra íþrótta og að hafa klárað tímabilið heil heilsu.

Að lokum segist hún ætla að taka næstu daga í hvíld áður en undirbúningurinn hefst fyrir lokatímabilið hennar þegar Ólympíuleikarnir í Tókýo fara fram.