Einungis þrjú af þeim félögum sem ætluðu að standa að Ofurdeildinni tilkynntu ekki síðustu daga að þau hefðu dregið til baka áform sín um að vera með í deildinni. Það voru spænsku félögin Barcelona og Real Madrid og ítalska félagið Juventus.

Manchester City varð fyrst til þess að hætta stuðningi við deildina síðdegis á þriðjudaginn, Chelsea fylgdi fast á hæla því og Manchester United, Liverpool, Tottenham og Arsenal tilkynntu um úrsögn sína á svipuðum tíma seinna á þriðjudagskvöldinu.

Í gærmorgun tilkynntu svo forráðamenn Atlético Madrid, Inter Milan og AC Milan að þau væru hætt við að vera með í deildinni. Það skildi fyrrgreind þrjú félög ein eftir í skipulagsnefnd deildarinnar sem hefur verið harðlega gagnrýnd síðan hún var sett á laggirnar síðastliðið sunnudagskvöld.

John W. Henry, eigandi Liverpool, sendi frá sér afsökunarbeiðni til félagsmanna sinna, en þar viðurkenndi Henry að hann hefði mislesið það hver vilji stuðningsmanna, knattspyrnustjóra og leikmanna liðsins væri.

Það sama gerðu kollegar hans Joel Glazer hjá Manchester United og Stan Kroenke hjá Arsenal. Andrea Agnelli, forseti Juventus, viðurkenndi svo í gær að Ofurdeildin yrði ekki að veruleika í náinni framtíð, en þrátt fyrir þá miklu gagnrýni sem deildin hefur fengið síðustu sólarhringa telur Agnelli enn að slík deild sé nauðsynleg fyrir evrópskan fótbolta.

Íþróttalögfræðingurinn doktor Katarina Pijetlovic, sagði í samtali við Skysports að UEFA og FIFA hefðu reglusetningarvald og refsivald í knattspyrnusamfélaginu.

Af þeim sökum geti þau, að hennar mati, bannað félögum að taka þátt í deildarkeppnum heima fyrir og refsað þeim með því að banna leikmönnum að leika í mótum á vegum þeirra, ef sett er á laggirnar deild án samþykkis sambandanna.

„Sérstaklega þegar búin er til lokuð deild þar sem lið falla ekki úr henni og komast ekki inn í hana á grundvelli árangurs. Það væri hins vegar hægt að draga í efa lögmæti þess að banna leikmönnum að spila á EM og HM fyrir að virða samninga við félög sín,“ segir Pijetlovic.

Stjórn ensku úrvalsdeildarinnar gæti refsað ensku félögunum sex fyrir að taka þátt í að stofna deildarkeppni án samþykkis ensku úrvalsdeildarinnar. Slíkt er bannað samkvæmt reglum deildarinnar.