Það er ekki hægt að segja annað en að stjórn Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, sé að draga ýmsa ása fram úr erminni til að reyna að fegra ímyndina. Meðal þeirra er að heimsmeistaramót karla í knattspyrnu verði haldið á tveggja ára fresti frá árinu 2028.

Undanfarna daga hafa fyrrverandi stjörnur knattspyrnuheimsins, eins og Ronaldo, Peter Schmeichel, Javi­er Mascherano, Yaya Toure, Didier Drogba og fleiri, stigið fram og lýst yfir stuðningi við hugmynd Arsene Wenger um að breyta keppnisfyrirkomulagi landsliða og fjölga stórmótum.

Í síðustu viku funduðu áttatíu fyrrverandi leikmenn og þjálfarar með ráðgjafarhópi FIFA þar sem hugmyndin var rædd í þaula, en á sama tíma steig Aleksander Ceferin, forseti UEFA fram og tilkynnti að Evrópuþjóðir myndu íhuga að sniðganga HM ef breytingarnar yrðu samþykktar. Um leið sagði Ceferin að forráðamenn suður-ameríska knattspyrnusambandsins væru á sama máli.

Wenger hefur undanfarin ár unnið að hugmyndum um breytingar á regluverkinu innan knattspyrnuheimsins, en ein róttækasta breytingin sem hann hefur lagt til er uppstokkun á landsleikjafyrirkomulaginu þar sem haldin yrðu árleg stórmót í knattspyrnu.

Hugmyndin var fyrst lögð fram af knattspyrnuyfirvöldum í Sádí-Arabíu og var samþykkt á ársþingi Alþjóðaknattspyrnusambandsins fyrr á þessu ári að málið yrði lagt fyrir nefnd sem Wenger leiðir.

Samkvæmt hugmyndinni yrði heimsmeistarakeppnin haldin annað hvert ár og hver heimsálfa myndi halda eigið mót, eins og Evrópumótið, þess á milli. Hluti af hugmynd Wengers, sem á að heilla knattspyrnufélögin, er að fækka landsleikjahléum úr fimm niður í tvö á ári og lengja þau þess í stað.

Ronaldo er einn þeirra sem hafa talað vel um hugmynd Wengers. Á næsta ári eru 20 ár síðan Brassar urðu síðasta þjóðin utan Evrópu til að vinna HM karla.
fréttablaðið/getty

Með því sé hægt að fækka ferðalögum og stýra álaginu betur. Samtök evrópskra atvinnumannadeilda voru fljót að lýsa yfir andstöðu sinni í takt við andstöðu frá knattspyrnusamböndum Evrópu og Suður-Ameríku.

„Það myndi gera út af við leikmenn að bæta eins mánaðar móti við leikjadagskrána á hverju einasta sumri. Ef HM er haldið á tveggja ára fresti munu karlamótin sífellt skarast við HM kvenna og Ólympíuleikana. Eins og Ólympíuleikarnir þá gerir fjögurra ára biðin HM að viðburðinum sem mótið er. Ég á ekki von á því að þjóðirnar innan Evrópu samþykki þessa hugmynd,“ sagði Ceferin við fjölmiðla á dögunum.

Á sama tíma hafa minni knattspyrnusambönd lýst yfir vilja til að fjölga mótum, enda fjárhagslegur ávinningur af slíkri ákvörðun. Einn þeirra, forseti karabíska knattspyrnusambandsins, sagði einhuga vilja hjá 25 þjóðum sambandsins að fjölga HM til að fá fleiri leiki sem skipta máli.

Um leið birti FIFA könnun sem var gerð af sambandinu þar sem naumur meirihluti af 23 þúsund manns sem tóku þátt í könnuninni, lýsti því yfir að vilja sjá fleiri stórmót og HM á tveggja ára fresti. Hugmyndin fékk mesta fylgið í Afríku þar sem tæplega tveir þriðju lýstu yfir áhuga á að fjölga mótum, en minnsta fylgið í Evrópu þar sem meirihluti vildi halda stöðunni óbreyttri. Von er á stærri könnun á næstunni.

„Þetta er umræða sem er eingöngu rekin áfram á peningarsjónarmiðum. FIFA veit að það er hægt að búa til meiri peninga með fjölgun leikja en það er spurning hver fær fjölgunina, Þetta er leið FIFA, fyrr á þessu ári reyndu stærstu félög Evrópu að taka frumkvæðið með stofnun Ofurdeildarinnar og UEFA hefur brugðist við kröfum stærstu liða í Evrópu til að gera sínar keppnir að söluvænni vöru,“ segir Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri í greiningardeild Íslandsbanka, sem hefur rannsakað fjármál knattspyrnufélaga, aðspurður út í tillögurnar.

Frakkar eru ríkjandi Heimsmeistarar
fréttablaðið/epa

„Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, er með tvær frábærar vörur í EM og Meistaradeild Evrópu sem færa sambandinu gríðarlegar tekjur fyrir framan nefið á Alþjóðaknattspyrnusambandinu sem FIFA vill komast í. Það er búið að reyna HM félagsliða sem misheppnaðist og þetta er önnur tilraun þeirra til að auka eigin tekjur. Um leið eru þau að berjast um takmarkaða auðlind, leikdaga.“

Aðspurðir segir Björn að hann skilji vel að minni sambönd séu sammála fjölguninni.

„Stór hluti af þeim styrkjum sem FIFA greiðir til aðildarþjóðanna greiðist jafnt á öll samtökin, hvort sem um ræðir Ísland, Þýskaland eða eitthvað smáríki. Fulltrúar aðildarsambanda , sérstaklega hjá minni þjóðunum sjá þarna möguleikann á tvöföldun á tekjustreyminu með fjölgun styrkja frá FIFA.“

Hann segist ekki í vafa um að ef hugmyndin verði samþykkt muni hún ganga vel enda eftirsóknin slík á heimsvísu.

„Ef af þessu yrði myndi FIFA eflaust gera þetta vel og aðsóknin að mótinu yrði sú sama og þekkist í núverandi fyrirkomulagi.“