Stjórn knattspyrnusambands Íslnds, KSÍ, mun leggja fram tillögu á ársþingi sambandsins sem fram fer síðar í þessum mánuði þess efnis að leyfiskerfið sem félög sem leika í efstu deild karla í knattspyrnu hafa þurft að standast til þess að fá þátttökuleyfi muni einnig gilda um efstu deild kvenna í knattspyrnu frá og með næsta keppnistímabili.

Þannig mun 35. grein í lögum KSÍ hljóða svo verði breytingatillagan samþykkt. Aðildarfélög, sem eiga rétt á þátttöku í efstu og 1. deild Íslandsmótsins í meistaraflokki karla og í efstu deild Íslandsmótsins í meistaraflokki kvenna skulu árlega sækja um þátttökuleyfi.

Til þess að fá þátttökuleyfi skulu félögin uppfylla tilteknar kröfur KSÍ varðandi skipulag, aðstöðu og fjármál. Kröfurnar eru byggðar á samræmdum staðli UEFA og íslenskum aðstæðum.

Stjórn KSÍ skal gefa út leyfishandbók KSÍ, sem gerir grein fyrir ofangreindum kröfum og leyfisferlinu. Leyfishandbókin skal vera samþykkt af UEFA. Leyfisnefndir, kjörnar á knattspyrnuþingi, stýra leyfisferlinu ásamt leyfisstjóra sem starfar á skrifstofu KSÍ.

Eftirtalin atriði koma fram í greinargerð með breytingartillögunni:

Frá upphafi árs 2018 hefur átt sér stað undirbúningsvinna vegna mögulegrar innleiðingu á leyfiskerfi fyrir efstu deild kvenna. Alþjóða knattspyrnusambandið (FIFA) valdi KSÍ úr hópi evrópskra knattspyrnusambanda til að taka þátt í nýju tilraunarverkefni FIFA um kvennaknattspyrnu (Women‘s football development pilot project 2018). Markmið verkefnisins var nota leyfiskerfi sem verkfæri til að hækka staðla og umgjörð kvennaboltans, ásamt því að stuðla að meiri fagmennsku.

Við vinnslu verkefnsins var megináhersla lögð á að undirbúa og kanna landslagið fyrir leyfiskerfi innan kvennaboltans hér á landi. Eftir að starfshópur um endurskoðun á kvennaknattspyrnu var skipaður í kjölfar samþykktar á ársþingi 2019, var fram haldið við að skoða hvort setja ætti á fót leyfiskerfi fyrir efstu deild kvenna. Það er ljóst að mati starfshópsins og stjórnar KSÍ að það liggja mörg tækifæri til framfara þegar kemur að kvennaknattspyrnu og innleiðingu á leyfiskerfi fyrir efstu deild.

Leyfiskerfið hefur gefið góða reynslu í efstu deildum karla hér á landi og hefur það bætt til muna faglega umgjörð íþróttinnar. Af þeim ástæðum samþykkti stjórn KSÍ á fundi sínum þann 12. desember sl. að leggja það til samþykktar á ársþingi sambandsins árið 2020 að sett verði á laggirnar leyfiskerfi í efstu deild kvenna sem tekur mið af leyfiskerfi fyrir þátttöku í meistaradeild kvenna.

Þar með verði tekið mikilvægt skref fyrir frekari þróun kvennaknattspyrnunnar hér á landi. Verði tillaga þessi samþykkt mun stjórn KSÍ innleiða leyfiskerfi fyrir félög í efstu deild kvenna árið 2021 sem tekur mið af leyfiskerfi UEFA sem gildir fyrir þátttöku í meistararadeild kvenna.