Það stefndi allt í að Smith-Rowe færi í næsta landsliðsverkefni með u-21 árs landsliði Englendinga en hann varð síðan kallaður inn í A-landsliðið. Hann fór á sína fyrstu æfingu með liðinu á dögunum og viðurkennir að hafa verið stressaður fyrir hana.

,,Ég spila við þessa leikmenn nánast í hverri einustu viku í ensku úrvalsdeildinni en þegar að maður er kominn hingað með þeim í enska landsliðið eru þetta allt aðrar aðstæður. Hér klæðumst við sama búning og það er frábært að vera á meðal þeirra," sagði Smith-Rowe í samtali við BBC.

Smith-Rowe hefur spilað í gegnum öll yngri landslið Englendinga og hann segir það hafa verið frábæra stund þegar að hann fékk símtalið frá Gareth Southgate, landsliðsþjálfara Englendinga sem tilkynnti honum að hann yrði í Enska A-landsliðinu í næsta landsliðsverkefni.

,,Þetta var frábær stund fyrir mig og fjölskyldu mína. Ég hljóp strax niður stigann heima og sagði mömmu frá þessu. Þetta var mjög tilfinningaþrungið, þau voru svo stolt af mér," sagði Emile Smith-Rowe, leikmaður Arsenal og enska landsliðsins í samtali við BBC.