Jadon Sancho skoraði fyrra mark Manchester United í sigur­leik gegn Sheriff Tira­spol í Evrópu­deildinni í Molda­víu í gær. Fagnið hjá Sancho vakti at­hygli en hann vildi þakka ungum strák fyrir gjöf sem hann fékk frá honum.

Sancho fagnaði með því að taka upp legg­hlífar sínar og sýna þeir í beinni út­sendingu um allan heim. Hann út­skýrði fagnið í við­tali eftir leik.

„Það var ungur strákur sem gaf mér þessar legg­hlífar og bað mig um að vera í þeim í leikjum. Ég sagði við hann að það væri ekkert mál og þetta var smá kveðja frá mér til hans þegar að ég skoraði markið. Ég vildi sýna honum að ég væri í legg­hlífunum."

Mynd­band sem hefur farið í dreifingu á sam­fé­lags­miðlum sýnir stundina sem strákurinn ungi lætur Sancho fá legg­hlífarnar á sínum tíma. Um er að ræða sér­hönnun á þeim og má sjá á þeim and­lits­mynd af Sancho sem og nafn hans.

Sancho hefur hægt og bítandi verið að finna fjölina hjá Manchester United eftir að hann gett til liðs við fé­lagið frá Borussia Dort­mund í júlí árið 2021. Miklar væntingar voru gerðar til hans á sínum tíma eftir að hann skaraði fram­úr hjá Dort­mund með 50 mörk og 64 stoð­sendingar í 137 leikjum fyrir fé­lagið.

Fagn Jadon Sancho í gærkvöldi
Fréttablaðið/GettyImages