„Það er óhætt að segja að þetta hafi vakið athygli. Krikket­heimurinn á það til að vera full alvarlegur, og þetta var okkar tilraun til að reyna að létta andrúmsloftið,“ segir Bala Kamallakh­aran, formaður Krikketsambands Íslands, glettinn þegar hann er spurður út í viðbrögðin við færslu sambandsins á Twitter.

Sambandið lýsti yfir áhuga á að hýsa leik Indlands og Pakistan í vikunni en um 44 þúsund manns voru búnir að læka við færsluna og ellefu hundruð skrifa ummæli um miðjan dag í gær. Þá rataði tístið í indverska fjölmiðla.

Í færslunni lýsir Krikketsamband Íslands yfir áhuga á að halda leikinn hér á landi og lofar 24 tíma birtuskilyrðum. Inni í tilboðinu var um leið betri umfjöllun á samfélagsmiðlum og öryggisgæsla frá leyniskyttum.

„Krikketsamband Englands lýsti yfir áhuga á að halda leikinn og þá settum við fram okkar hugmynd og hún sló í gegn. Augljóslega erum við að slá á létta strengi, en maður veit aldrei hvernig hlutirnir gerast á netinu.“

Hann segir að ef Indland eða Pakistan sýni þessu áhuga séu þeir tilbúnir að reyna að halda leikinn.

„Ef þeir hringja í okkur, þá finnum við lausn á þessu,“ segir Bala og hlær.

Krikketsambandið hefur reynt að hópfjármagna þjóðarleikvang en flestir krikketleikir hér á landi hafa farið fram á Víðistaðatúni.

Bala Kamallakharan fjárfestir.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Við höfum verið að spila á Víðistaðatúni og lékum fyrsta leikinn á KR-vellinum um daginn eftir að KR sýndi áhuga á samstarfi við liðið í Vesturbænum.“ Óhætt er að segja að það yrði einn stærsti viðburður í sögu Íslands enda fylgjast mörg hundruð milljónir með leikjum erkifjendanna þegar þeir mætast. Átta hundruð þúsund sóttu um miða á leik liðanna á Heimsmeistaramótinu í krikket árið 2019.

„Leikir þessara liða eru einn stærsti sjónvarpsviðburður heims, ég held að það hafi hátt í milljarður manns fylgst með síðasta leik liðanna. Það er mikil krikkethefð í þessum ríkjum og margir af bestu leikmönnum heims koma frá Indlandi og Pakistan, þannig að þau eru meðal bestu liða heims.“

Frá æfingu hjá Krikketfélagi Kópavogs.
Mynd/aðsend

Bala tekur undir að þetta gæti reynst jákvæð umfjöllun fyrir Krikketsambandið enda hafa fjölmiðlar og krikketáhugamenn víðs vegar um heiminn fjallað um færsluna.

„Vonandi. Það er mikill áhugi á liðunum hérna og fólk fylgist með víða úr heiminum. Markmiðið okkar er að byggja upp krikkethefð og að geta teflt fram keppnishæfu landsliði, en það mun taka tíma,“ segir Bala og heldur áfram:

„Það er verið að stofna fimmta félagið hér á landi og við erum búnir að tvöfalda iðkendafjöldann. Á næsta ári stendur til að stofna kvenna- og unglingalið.“