Þrír leikmenn úr Íslandsmeistaraliði Breiðabliks í knattspyrnu kvenna á síðasta ári, hafa undanfarnar vikur samið við félög í þýsku efstu deildinni. Alexandra Jóhannsdóttir var í gær kynnt til leiks sem leikmaður Eintracht Frankfurt, fyrr í vikunni var tilkynnt um félagaskipti Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur til toppliðs deildarinnar, Bayern München, og í lok síðasta árs samdi Sveindís Jane Jónsdóttir, sem var á láni hjá Blikum frá Keflavík í fyrra, við stórliðið Wolfsburg.

Þá var tilkynnt í vikunni að Andrea Rán Snæfells Hauksdóttir færi á lán til Le Havre í Frakklandi, þar sem hún hittir fyrir liðsfélaga sinn úr Breiðabliki í fyrra, Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur og landsliðsmiðvörðinn Önnu Björk Kristjánsdóttur.

Karólína Lea og Sveindís Jane eru fæddar árið 2001 en Alexandra árið 2000, en athyglisvert er að svo ungir leikmenn fari beint frá Íslandi til liða í þýsku efstu deildinni. Sveindís Jane var hins vegar lánuð til Kristianstads í Svíþjóð og mun leika þar á komandi keppnistímabili.

Alexandra og Karólína Lea eiga það sammerkt að vera Hafnfirðingar sem gengu ungar til liðs við Blika og fengu stórt hlutverk í öflugu liði í Kópavoginum ungar að aldri. Alexandra var 17 ára þegar hún kom til Breiðabliks frá Haukum og Karólína Lea 16 ára gömul þegar hún söðlaði um frá FH til Blika.

„Það má svo sannarlega segja það,“ segir Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, aðspurður út í tvíeggja sverðið sem þjálfari, um tilfinninguna að vera að missa hryggjarsúluna úr meistaraliði Blika, en á sama tíma gleðjast fyrir hönd stelpnanna að vera að fara út í atvinnumennsku í sterkustu deildir heims.

Wolfsburg og Bayern eru tvö af sterkustu liðum Evrópu að mati styrkleikalista UEFA og franska og þýska deildin þær sterkustu í Evrópu, samkvæmt sömu útreikningum. Þorsteinn tekur undir að það sé ákveðin viðurkenning fyrir gott starf sem unnið er hjá Breiðabliki.

„Við erum að sjá leikmennina okkar fara í tvær af sterkustu deildum heims og ég held að þetta sé frábært skref fyrir þær. Þetta sýnir að við erum að gera eitthvað rétt hjá Breiðabliki og við getum tekið þessu sem hrósi. Að félagið hafi gert vel fyrir þessa leikmenn og gefið þeim möguleika á að taka þetta skref, ásamt þeim sjálfum að sjálfsögðu. Þegar svona stórlið standa til boða er varla neitt annað hægt en að taka tilboðinu.“

Þessir leikmenn eru komnir í stórt hlutverk hja A-landsliðinu þrátt fyrir ungan aldur, en Alexandra lék sex af átta leikjum Íslands þegar liðið tryggði sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Englandi sumarið 2022, Sveindís Jane fimm og Karólína Lea þrjá.

„Þær búa allar að mikilli reynslu og eru tilbúnar að taka næsta skref. Þær eiga allar að baki tvö tímabil í efstu deild, landsleiki og Alexandra og Karólína eiga að baki Evrópuleiki. Það er því mjög jákvætt að sjá leikmenn taka þetta næsta skref sem var ekki alltaf í boði. Landsliðið á stóran þátt í þessu, en þær komast í landsliðið með góðri frammistöðu hjá félagsliði.“

Þorsteinn segir að það hafi verið nóg að gera við að svara fyrirspurnum að utan, en á ekki von á því að fleiri séu á förum í bili.

„Það hefur verið nóg að gera að svara eftirspurnum og óvenjumikill áhugi. Ég er ekki alveg hundrað prósent á því, en ég held að það séu ekki fleiri fyrirspurnir inni.“

Fyrir vikið er á verkefnalista Þorsteins og þjálfarateymisins hjá Blikum að smíða nýtt meistaralið, en Þorsteinn hefur einnig verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá íslenska kvennalandsliðinu. Hann segist vera spenntur fyrir framhaldinu í Kópavogi, en staðfesti rað hann hafi rætt lauslega við KSÍ.

„Það verður krefjandi en spennandi verkefni að byggja upp nýtt lið. Við vissum að þetta gæti gerst og vorum byrjuð að undirbúa leikmannahópinn. Ég er bjartsýnn á að við verðum með gott lið í sumar og hefur gengið vel að innleiða breytingarnar. Svo eru margir spennandi leikmenn að bíða eftir tækifærinu, framtíðin er björt.“

Þorsteinn H. Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, hefur gert góða hluti í Kópavoginum.