Shelly Finkel, fyrrum þjálfari hnefaleikagoðsagnarinnar Mike Tyson, greinir frá því sem mætti kalla lygilega sögu af samskiptum sínum við Tyson og tígrisdýrunum sem hann átti á sínum tíma.

Talið er að Tyson hafi á sínum tíma átt þrjú tígrísdýr sem eru talin hafa kostað hann yfir 8 milljónir íslenskra króna. Fyrrum þjálfari Tyson, Shelly Finkel, segir að hnefaleikagoðsögnin hafi verið neyddur til þess að gefa þau frá sér eftir afdrifaríkan göngutúr með eitt þeirra.

Tyson bjó á þessum tíma í Las Vegas. ,,Húsið hans var hliðina á húsi frægs skemmtikrafts í Vegas og húsi auðugs viðskiptajöfurs sem átti nokkra hunda," segir Finkel í samtali við The Sun í New York.

,,Einn daginn ákvað Tyson að fara í göngutúr með einn tígurinn sem kemur allt í einu auga á einn hundinn, hleypur af stað á eftir honum og reynir að stökkva yfir grindverk við garð nágrannans. Nágranninn horfir út um gluggann á húsinu sínu og sér Tyson reyna að toga tígrisdýrið niður af girðingunni."

Finkel segir að um kvöldið þennan örlagaríka dag hafi hann fengið símtal frá Tyson sem tjáði honum að dýraeftirlitið væri mætt til sín.

,,Ég má ekki halda þessum dýrum hjá mér," segir Finkel að Tyson hafi sagt við sig. ,,Hvernig heldurðu að þau hafi komist að því?"

Finkel segist hafa sagt Tyson að það væri auðséð. ,,Nágranni þinn sér tígrisdýr reyna stökkva yfir grindverkið hjá sér í tilraun sinni til að éta hundinn hans. Hvernig heldurðu að þau hafi komist að því?"