Woods meiddist illa eftir að hafa misst stjórn á bifreið sinni í febrúar á þessu ári. Hann eyddi í kjölfarið þremur vikum á sjúkrahúsi og um tíma var sá möguleiki íhugaður að taka honum einn fót sökum þeirra meiðsla sem hann varð fyrir. ,,Það var tímapunktur þar sem að helmingslíkur voru á því," sagði Tiger Woods í samtali við Golf Digest

,,Ég get enn tekið þátt á golfmótum ef líkaminn leyfir mér það, ég get spilað á mótum en ég tel það ekki raunhæfan möguleika að vera aftur á meðal þeirra bestu. Ég mun vilja velja þau mót sem ég tek þátt í , nokkur mót á ári," segir Tiger Woods.

Hann segist ekki þurfa að keppa og spila gegn bestu golfurum í heimi til þessa að eiga frábært líf. ,,Eftir bakmeiðslin fannst mér ég þurfa að sanna mig á ný og ég gerði það. Hlutirnir eru öðruvísi núna og það er bara allt í lagi."

Hann segist skilja nýjan raunveruleika sinn og samþykkir hann. Hann hefur undanfarna mánuði verið í endurhæfingu sem byrjaði í raun strax á sjúkrahúsinu hjá honum fyrir rúmum níu mánuðum síðan.

Ein af fyrstu minningum Tigers eftir bílslysið var þegar að hann bað um golfkylfu er hann lá á sjúkrahúsinu. Eftir sjúkrahúsdvölina eyddi hann næstu þremur mánuðum nánast bundinn við sjúkrarúm heima hjá sér. Því næst ferðaðist hann um í hjólastól, við tóku hækjurnar og nú er hann farinn að ganga um.

Það vakti athygli þegar að Tiger birti myndskeið á samfélagsmiðlum sínum á dögunum. Í myndskeiðinu má sjá hann sveifla golfkylfu á ný.

Hann segist enn eiga langt í lang með endurhæfingu sína, hann sé í raun ekki hálfnaður í því verkefni. ,,Þetta er erfiður vegur að feta en ég er bara glaður með þann árangur sem hefur náðst til þessa."

Tiger Woods er einn besti kylfingur sögunnar og margir sem bíða spenntir eftir endurkomu hans, sama í hvaða formi hún verður. ,,Það er til mikils að hlakka fram undan og mikil erfiðisvinna sem ég þarf að leggja á mig. Ég þarf að vera hæfilega þolinmóður og passa að fara ekki fram úr mér," sagði Tiger Woods í viðtali sem birtist á vefsíðu Golf digest.