Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods mun spila með 12 ára syni sínum, Charlie, á PNC meistaraótinu í næstu viku en þetta er fyrsta mótið sem hann spilar á eftir að hafa lent í alvarlegu bílslysi fyrir 10 mánuðum síðan.

Tiger Woods var nálægt því að missa annan fót sinn í bílslysinu í febarúar fyrr á þessu ári. Kylfingurinn opnaði sig um framhaldið á golfferlinum í síðustu viku þar sem hann sagði að hann sæi ekki fyrir sér að spila í mótaröð á hæsta stigi aftur.

Hann myndi hins vegar spila á opnum mótum og góðgerðarmótum til þess að halda sér við í golfinu.

„Þrátt fyrir að þetta hafi verið afar erfitt og krefjandi ár, andlega og líkamlega, þá er ég einkar spenntur fyrir því að ljúka golfárinu með því að spila þessu móti með syni mínum.

Ég mun mæta á þetta mót fyrst og fremst sem ofboðslega stoltur faðir," segir Tiger Woods í twitter-færslu um komandi verkefni.