Tiger meiddist illa eftir að hafa misst stjórn á bifreið sinni í febrúar á þessu ári. Hann eyddi í kjölfarið þremur vikum á sjúkrahúsi og um tíma var sá möguleiki íhugaður að taka honum einn fót sökum þeirra meiðsla sem hann varð fyrir. ,,Það var tímapunktur þar sem að helmingslíkur voru á því," sagði Tiger Woods í viðtali við Golf Digest sem birtist í síðasta mánuði.

Woods-feðgarnir mynda teymi um helgina en þeir tóku einmitt þátt á mótinu í fyrra sem er jafnframt síðasta mótið sem Tiger keppti á áður en hann lenti í bílslýsinu. Feðgarnir voru mættir saman út á æfingasvæði í dag.

,,Ég get enn tekið þátt á golfmótum ef líkaminn leyfir mér það, ég get spilað á mótum en ég tel það ekki raunhæfan möguleika að vera aftur á meðal þeirra bestu. Ég mun vilja velja þau mót sem ég tek þátt í , nokkur mót á ári," sagði Tiger í viðtalinu við Golf Digest í síðasta mánuði. Þetta er fyrsta mótið sem Tiger ákveður að vera hluti af eftir bílslysið örlagaríka en þeir feðgarnir verða meðal annars í holli með kylfingnum Justin Thomas sem hlakkar til að sjá Tiger slá golfkúlu á ný.

,,Spennustigið er mjög hátt hjá mér að sjá hann aftur úti á vellinum, það verður gott fyrir hann að komast heimanfrá sér og sjá kunnuleg andlit. Ég veit að það er honum mikilvægt að eyða tíma með Charlie svo ég veit að hann er spenntur fyrir þessu móti. Hvað keppnisskapið varðar þá tel ég að væntingar hans til frammistöðu sinnar á mótinu eru ábyggilega litlar en á sama tíma, þekkjandi manninn, veit ég að hann verður mjög pirraður ef hann spilar ekki vel um helgina," sagði Justin Thomas í viðtali við Sky Sports.

Spilar sem faðir

Í færslu sem Tiger setti á samfélagsmiðilinn Twitter á dögunum segist hann spenntur fyrir því að loka erfiðu ári hjá sér með því að taka þátt á móti helgarinnar.

,,Þrátt fyrir þetta hafi verið langt og strangt ár þá er ég mjög spenntur fyrir því að loka því með því að kepa á PNC Meistaramótinu með syni mínum, Charlie. Ég mun spila sem faðir og gæti ekki verið meira spenntari og stoltur yfir því."