Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods féll í dag úr leik á opna breska meistaramótinu í golfi, The Open, sem er fjórða risamót ársins. Tiger náði sér ekki á flug á fyrstu tveimur hringjum mótsins sem fram fer á Royal Portrush-vellinum á Norður-Írlandi að þessu sinni.

Hann spilaði fyrsta hringinn á sjö höggum yfir pari vallarins en annar hringurinn var hins vegar betri en þar lék hann á einu höggi undir pari. Niðurskurðarlínan er miðuð við að leika hringina tvo á einu höggi yfir pari vallarins.

Tiger vann sinn fimmtánda risatitil þegar hann vann Masters-mótið í apríl fyrr á þessu ári. Þetta er í fyrsta skipti á þessari öld sem sigurvegari Masters-mótsins fer í kjölfarið ekki í gegnum niðurskurðinn á næstu tveimur risamótum, það er PGA-meistaramótið og opna breska.

Norður-ÍrinnRory Mcllroy sem ætlaði sér stóra hluti á heimavelli sínum komst ekki í gegnum niðurskurðinn en hann kom í hús eftir annan hringinn á tveimur höggum yfir pari vallarins eftir sveiflukennda frammistöðu sína.

Útlit fyrir spennandi baráttu um sigurinn

Bandaríkjamaðurinn JB Holmes og Írinn Shane Lowry eru efstir eftir fyrstu tvo hringina en þeir hafa báðir leikið þá á átta höggum undir pari vallarins. Englendingarnir Tommy Fleetwood og Lee Westwood koma þar á eftir á sjö höggum undir pari vallarins.

Cameron Smith, Justin Harding og Justin Rose eru svo í seilingarfjarlægð frá toppnum á sex höggum undir pari.

Brooks Koepka, sem ásamt Tiger þótti sigurstranglegur fyrir mótið, er ásamt Jordan Spieth, Andrew Putnam og Dylan Frittelli á fimm höggum undir pari fyrir lokahringina tvo sem leiknir verða á morgun og sunnudag.

Ítalinn Francesco Molinari sem á titil að verja á mótinu komst naumlega í gegnum niðurskurðinn en hann hefur leikið fyrri hringina tvo á einu höggi yfir pari vallarins.