Tiger Woods, einn besti kylfingur allra tíma, segist finna mikinn mun á sér í aðdraganda PGA-meistaramótsins sem fer fram í vikunni miðað við aðdragandann að Masters-mótinu. Þetta verður annað mót Tigers á árinu.

Kylfingurinn sneri aftur eftir rúmlega árs fjarveru í vor þegar hann var meðal þátttakenda á Masters-mótinu, fyrsta risamóti ársins.

Tiger hefur unnið fimmtán risatitla og 82 mót á PGA-mótaröðinni en hann er enn að vinna að endurhæfingu eftir alvarlegt bílslys á síðasta ári.

Um tíma virtist sem svo að ferli kylfingsins sem er af mörgum talinn besti kylfingur sögunnar og einn af bestu íþróttamönnum heims undanfarna áratugi væri lokið en þátttaka Tigers er gullsins ígildi fyrir íþróttina.

„Við settum meiri kraft í æfingarnar í síðustu viku, lékum fleiri hringi og það virðist allt vera á réttri leið.“