Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods jafnaði met yfir fjölda sigra á PGA-mótaröðinni þegar hann bar sigur úr býtum á Zozo-mótinu í nótt og vann þar af leiðandi sitt 82. PGA-mót.

Mótið fór fram í Japan en þessi 43 ára gamli kylfingur hefur nú unnið jafn mörg PGA-meistaramót og samlandi hans, Sam Snead, sem setti metið árið 1965.

Þetta var fyrsta mótið sem Tiger tekur þátt í síðan hann fór í sína fimmtu hnéaðgerð fyrir níu vikum síðan. Í apríl fyrr á þessu ári bar Tiger sigur úr býtum á Masters sem var hans fyrsti sigur á risamóti í 11 ár.

Hann vantar þrjá sigra á risamóti til þess að komast upp að hlið Jack Nicklaus sem á metið yfir fjölda sigra á risamótum með sínum sínum 18 sigum á þeim vettvangi.

„Framtíðin er bjartari en fyrir nokkrum árum síðan og nú líður mér eins og ég eigi nokkur ár eftir í hæsta gæðaflokki. Líkamlega get ég ekki gert allt sem ég gat áður en leikskilningurinn er ennþá í toppstandi,

Tiger sagði enn fremur að hann vonaðist til þess að koma aftur til Japans á næsta ári til þess að taka þátt í Ólympíleikunum sem haldnir verða í Tókýó næsta sumar.