Tiger Woods mun enn á ný reyna fyrir sér á hæsta stigi golfíþróttarinnar og snúa aftur á atvinnumannamót rúmu hálfu ári eftir að hann gerði slíkt hið sama. Tiger, sem er orðinn 47 ára, er ekki bara mættur til þess að taka þátt. Að hans eigin sögn skráir hann sig aldrei til leiks á móti nema með þá hugsun að stefna að sigri.
Um hálft ár er liðið síðan Tiger Woods tók þátt í móti á atvinnumannastigi en í dag stígur hann aftur inn á golfvöllinn og hefur leik á Genisis Invitational mótinu sem er hluti af PGA-mótaröðinni.
Margir héldu að atvinnumanna ferli Tiger, sem er talinn besti kylfingur sögunnar, væri lokið eftir að hann lenti í alvarlegu bílslysi árið 2021 þar sem læknar íhuguðu um stund að fjarlægja á honum einn fótinn.
Allt kom þó fyrir ekki, Tiger lagði hart að sér í endurhæfingunni og sneri aftur á völlinn á atvinnumannastigi. Nú er liðið hálft ár síðan að hann tók þátt á Opna breska meistaramótinu og enn á ný ætlar Tiger að reyna spila til sigurs.
„Ég myndi ekki stíga fram og keppa á móti þessum kylfingum ef ég teldi mig ekki geta unnið þá,“ sagði Tiger á blaðamannafundi fyrir Genesis mótið en á mótinu taka margir af bestu kylfingum heims þátt.
Tiger hefur unnið 15 risatitla á sínum ferli, síðasti sigur hans kom í október árið 2019 og þó svo að Tiger hafi náð 47 ára aldri telur hann ekki réttu stundina núna að láta gott heita.
„Ég er hér til þess að ná í sigur. Okey? Það að ná bara í gegnum niðurskurð er ekki frábært fyrir mig,“ ítrekaði Tiger og bætti við. „Ef ég mæti til leiks á mót, þá er það alltaf til þess að reyna næla í sigur.
Það mun koma að þeim tímapunkti að líkami minn gerir mér það ekki kleift lengur, það mun líklegast verða raunin fyrr en seinna. En að hugsa frekar um að verða sendiherra íþróttarinnar og halda mér bara inn á vellinum með þessum kylfingum er ekki hugsun sem ég viðurkenni í huga mínum, það er ekki hluti af erfðaefni mínu.“
I love moments like these from Tiger Woods. He’s authentic, honest and thoughtful. And it’s just another reason why I’m a fan. pic.twitter.com/mp5tsA59YM
— Amanda Rose (@AmandaGolf59) February 14, 2023