Banda­ríski kylfingurinn Tiger Woods hafnaði boði um að ganga til liðs við LIV-móta­röðina í golfi, til­boðið hljóðaði upp á 700-800 milljónir banda­ríkja­dollara að því er kom fram í máli Greg Norman, fram­kvæmdar­stjóra LIV-mótaraðarinnar

Nokkrir af þekktustu kylfingum heims munu taka þátt í móta­röðinni sem er keyrð á­fram á fjár­magni frá Sádi-Arabíu. Móta­röðin fór af stað í júní­mánuði og segir Greg Norman að reynt hafi verið að fá Tiger til þess að skipta yfir frá PGA til LIV áður en hann varð fram­kvæmdar­stjóri.

,,Þetta til­boð lá fyrir áður. Tiger er auð­vitað þekkt stærð í golf­heiminum svo auð­vitað var reynt að fá hann og talan var þarna á bilinu 700-800 milljónir," sagði Norman í sam­tali við Fox News.

Tiger meiddist illa eftir að hafa misst stjórn á bif­reið sinni í febrúar á síðasta ári. Hann eyddi í kjöl­farið þremur vikum á sjúkra­húsi og um tíma var sá mögu­leiki í­hugaður að taka af honum einn fót sökum þeirra meiðsla sem hann varð fyrir.

Hann sneri aftur risa­mót í apríl á Masters mótinu og hefur síðan þá reynt fyrir sér á fleiri risa­mótum.