Þó svo að hugurinn hjá Tiger Woods einblíni þessa stundina á Genesis mótið sem er hluti af PGA mótaröðinni og stendur yfir næstu daga er ekki hægt að líta fram hjá viðburði sem fer fram í apríl.
Umræddur viðburður er sigurkvöldverður Scottie Scheffler, sem vann á síðasta ári Opna breska meistaramótið. Kvöldverðurinn er árlegur þar sem sigurvegarinn er hylltur og þar koma saman allir fyrrum sigurvegarar mótsins og eiga þeir góða kvöldstund saman.
Hins vegar er ekki hægt að líta fram hjá sundrunginni sem ríkir í golfheiminum þessa mánuðina með tilkomu LIV-mótaraðarinnar sem stofnuð var til höfuðs PGA-mótaröðinni.
LIV-mótaröðinni hefur tekist að lokka til sín marga af bestu kylfingum heims og á sama tíma hefur þeim kylfingum verið meinað að taka þátt á ákveðnum mótum, meðal annars á PGA-mótaröðinni.
Það er hins vegar ekki raunin á Opna breska meistaramótinu og því munu kylfingar úr báðum þessum mótaröðum verða viðstaddir umræddan kvöldverð í apríl.
Tiger Woods, einn besti kylfingur allra tíma, er einn af þeim sem hafa gagnrýnt LIV-mótaröðina harkalega og á blaðamannafundi fyrir Genesis mót helgarinnar var hann spurður út í væntanlegan kvöldverð í apríl.
„Það verður mikið talað um þennan meistara kvöldverð. Við þurfum að heiðra Scottie, Scottie er sigurvegarinn, þetta er hans kvöldstund,“ sagði Tiger á blaðamannafundi. „Við þurfum að sjá til þess að hans afrek verði heiðrað en einnig að átta okkur á stöðunni sem við erum í.“
Hann var þá spurður að því hvernig komið verði fram við kylfinga LIV-mótaraðarinnar þetta kvöld.
„Ég veit ekki hver viðbrögðin verða. Ég veit að vinskapur á milli margra okkar hefur tekið óvænta stefnu en við eigum eftir að sjá hvernig þetta þróast.“