Þó svo að hugurinn hjá Tiger Woods ein­blíni þessa stundina á Genesis mótið sem er hluti af PGA móta­röðinni og stendur yfir næstu daga er ekki hægt að líta fram hjá við­burði sem fer fram í apríl.

Um­ræddur við­burður er sigur­kvöld­verður Scotti­e Schef­fler, sem vann á síðasta ári Opna breska meistara­mótið. Kvöld­verðurinn er ár­legur þar sem sigur­vegarinn er hylltur og þar koma saman allir fyrrum sigur­vegarar mótsins og eiga þeir góða kvöld­stund saman.

Hins vegar er ekki hægt að líta fram hjá sundrunginni sem ríkir í golf­heiminum þessa mánuðina með til­komu LIV-mótaraðarinnar sem stofnuð var til höfuðs PGA-móta­röðinni.

LIV-móta­röðinni hefur tekist að lokka til sín marga af bestu kylfingum heims og á sama tíma hefur þeim kylfingum verið meinað að taka þátt á á­kveðnum mótum, meðal annars á PGA-móta­röðinni.

Það er hins vegar ekki raunin á Opna breska meistara­mótinu og því munu kylfingar úr báðum þessum móta­röðum verða við­staddir um­ræddan kvöld­verð í apríl.

Tiger Woods, einn besti kylfingur allra tíma, er einn af þeim sem hafa gagn­rýnt LIV-móta­röðina harka­lega og á blaða­manna­fundi fyrir Genesis mót helgarinnar var hann spurður út í væntan­legan kvöld­verð í apríl.

„Það verður mikið talað um þennan meistara kvöld­verð. Við þurfum að heiðra Scotti­e, Scotti­e er sigur­vegarinn, þetta er hans kvöld­stund,“ sagði Tiger á blaða­manna­fundi. „Við þurfum að sjá til þess að hans af­rek verði heiðrað en einnig að átta okkur á stöðunni sem við erum í.“

Hann var þá spurður að því hvernig komið verði fram við kylfinga LIV-mótaraðarinnar þetta kvöld.

„Ég veit ekki hver við­brögðin verða. Ég veit að vin­skapur á milli margra okkar hefur tekið ó­vænta stefnu en við eigum eftir að sjá hvernig þetta þróast.“