Tiger Woods afþakkaði boð um að taka þátt í móti í Sádi Arabíu í næsta mánuði þrátt fyrir að mótshaldarar hafi boðið Tiger þrjár milljónir dala fyrir að taka þátt næstu tvö ár.

Kylfingurinn hefur verið að stýra álaginu og vandað valið þegar kemur að mótum á PGA-mótaröðinni enda brothættur eftir fjölmargar aðgerðir á hné og baki eftir tuttugu ára feril.

Þetta verður í annað sinn sem mótið sem er hluti af Evrópumótaröðinni fer fram í Sádi Arabíu og hafa nöfn á borð við Phil Mickelson, Tony Finau og Sergio Garcia staðfest þáttöku sína.

Kylfingar sem hafa staðfest þátttöku sína hafa verið gagnrýndir fyrir að samþykkja tilboð frá Sádi Arabíu vegna mannréttindabrota stjórnvalda þar í landi en Tiger segir það ekki ástæðuna fyrir fjarverunni.

„Þetta var langt og erfitt ferðalag og því afþakkaði ég tilboðið. Kannski mun þetta mót leiða til framfara á svæðinu, á sínum tíma lék ég í Dubaí þegar það verkefni var að byrja, núna mætti halda að maður væri að koma til New York þegar maður kemur til Dubaí. Kannski er það framtíðin í Sádi Arabíu.“