Heimir Guð­jóns­son var í fyrra­kvöld ráðinn þjálfari FH í Bestu deild karla. Heimir er fjórði þjálfari FH-liðsins á árinu 2022.

Ólafur Jóhannes­son byrjaði árið með FH en þegar lítið var búið af Ís­lands­mótinu á­kvað FH að reka hann úr starfi. Eiður Smári Guð­john­sen tók við starfinu en í byrjun októ­ber steig hann til hliðar vegna per­sónu­legra mála. Sigur­vin Ólafs­son tók þá við starfinu í stuttan tíma.

Heimir er nú mættur aftur til FH eftir að hafa verið rekinn 2017 úr þessu sama starfi. Sigur­vin verður að­stoðar­maður hans.

Frá því að Heimi var vikið úr starfinu hefur FH sex sinnum skipt um þjálfara.

„Það hefur verið allt of mikil rót­ering á hlutunum, það þarf að koma með festu inn í hópinn og stöðug­leika. Finna þessi gömlu góðu gildi sem FH hefur staðið fyrir frá byrjun þessarar aldar. Það er það sem þarf að gera líka,“ segir Heimir um málið.