Þýska sjónvarpsstöðin Welt liggur undir gagnrýni eftir að hafa tengt fagnaðarlæti spútnikliðs Marokkó við ISIS-samtökin sem eru víða talin vera hryðjuverkasamtök.

Í myndskeiðinu sem sjá má hér fyrir neðan sést þar sem þulurinn fullyrðir að leikmenn Marokkó fagni sigrunum á HM í knattspyrnu að hætti ISIS-manna með því að reisa fingur upp í loftið.

Marokkó varð á dögunum fyrsta Afríkuliðið til að komast í undanúrslitin á HM í knattspyrnu með 1-0 sigri á Portúgal og um leið fyrsta Arabaríkið til að komast í undanúrslitin.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þýskir fjölmiðlar beina spjótum sínum að liði Marokkó en miðillinn Taz sakaði Marokkó um gyðingaandúð með því að fagna með palestínska fánanum.