Deisen­hofen er sem stendur í fimmtu efstu deild í þýsku deildarkeppninni en liðið er staðsett í Ober­haching í Bæj­aralandi í úthverfi München. Hannes kom liðinu upp um deild á síðustu leiktíð og er á góðri leið með að fara upp um deild í vor.

Keppt er í svæðisskiptum riðlum í fimmtu deildinni og eftir það er spilað umspil um laust sæti í fjórðu deild sem er sú deild þar sem skipt er úr áhugamannaumhverfi í vísi að atvinnumennsku. Deisenhofn er eins og sakir standa í öðru sæti suðurriðislsins með 41 stig í 21 leikjum en leiknar eru 34 umferðir í riðlinum.

„Mér líður mjög vel hjá þessu liði og það er ekkert fararsnið á mér á næstunni héðan úr úthverfi München. Ég er með spennandi lið í höndunum með ungum og efnilegum leikmannahópi sem gaman er að vinna með. Uppistaðan í liðinu eru leikmenn af svæðinu sem hafa alist upp í akademíum Bayern München eða 1860 München og ekki komist í gegnum síuna þar. Þetta eru því vel skólaðir leikmenn sem vilja læra og bæta sig. Það er gott að búa hér í þessa fallega umhverfi í Bæjaralandi,“ segir Hannes um starfsumhverfið sem hann vinnur í og umhverfið í kringum hann.

„Þetta er félag sem hefur tæplega 600 iðkendur í yngri flokkum, U-23 ára lið og varalið auk aðalliðsins sem ég stýri. Við erum með góða akademíu sem skilar góðum leikmönnum upp í aðalliðið og það er gefandi að vinna í umhverfi þar sem ungir og efnilegir leikmenn fá tækifæri. Við erum með marga leikmenn úr U-19 ára liðinu sem eru að spila stórt hlutverk með aðalliðinu. Þar sem við greiðum engin laun þá erum við einungis með leikmenn sem fara þetta á viljanum til þess að bæta sig sem leikmenn og sjá til þess að þeir og félagið vaxi og dafni,“ segir framherjinn fyrrverandi enn fremur.

Kláraði ævintýraþörfina þegar ég var leikmaður

„Aðdragandinn að því ég kom hingað er sá að ég spilaði í Bavaríu undir lok ferils míns og svo kynntist ég þýskri konu og settist að í úthverfi München-borgar. Ég er ekki í fullu starfi sem þjálfari en ég rek einnig útibú stórar líkamsræktarkeðju sem er í miðbæ München. Stefnan er að fara á einhverjum tímapunkti út í það að geta sinnt þjálfuninni sem aðalstarfi. Það er hins vegar kostur við starfið að það tengist íþróttum og þetta á því vel saman. Ég er samt eins og ég áður segir ekkert að flýta mér héðan,“ segir Hannes.

„Það er sex ára plan í gangi hjá þessu félagi þar sem framkvæmdir eru fyrirhugarðar til þess að bæta aðstöðuna. Við erum eiginlega svolítið á undan áætlun með för okkur upp um deildir en við þyrfum að gera miklar breytingar á rekstrinum og umgjörð í kringum liðið ef við förum upp í fjórðu deild. Þar þarf að setja leikmenn á samning og greiða laun sem dæmi. Svo eru gerðar kröfur um stúku og annað í þeim dúr.

Ég er ekkert viss um að ég verði hérna til þess að klára planið sem er í gangi en ég fékk útrás fyrir að flakka um heiminn og skoða mismundandi menningarheima undir lok atvinnumannaferilsins. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að tikka í þau box á þeim tímapunkti,“ segir þess metnaðarfulli þjálfari sem lék í níu löndum á leikmannaferli sínum. Það er hér heima, Rússlandi og Kasakstan auk Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar og Austurríki, Englandi og Þýskalandi.

Vetr­ar­frí er í neðri deild­un­um í Þýskalandi en keppni hefst aftur í mars og þá freistar þessi 36 ára efnilegi þjálfari þess að koma liðinu upp um deild annað tímabilið í röð.

Hannes er hér ásamt forráðamönnum félagsins eftir að samningar náðust.
Mynd/Deisenhofen