Dusan Vlahovic, einn af stjörnuleikmönnum serbneska landsliðsins í knattspyrnu þvertekur fyrir orðróma sem segja hann hafa sængað hjá unnustu liðsfélaga síns í landsliði Serbíu.
Serbía tekur þátt á HM í Katar þessa dagana og hefur orðrómurinn þyrlað upp ryki í herbúðum liðsins.
Vlahovic er sagður hafa haldið við Önu Cakic, eiginkonu Predrag Rajkovic sem er einn af markvörðum Serbíu. Vlahovic tók sig sjálfur til og tók málið fyrir á blaðamannafundi serbneska landsliðsins í gær.
,,Mér þykir það leitt að þurfa byrja blaðamannafundinn á þessu en ég þarf að minnast á þetta því það ganga sögusagnir um mig.
Það sem að þið lesið og heyrið um mig núna, við þurfum í raun ekkert að ræða það frekar, þetta er út úr korti," sagði Vlahovic á blaðamannafundinum.
Þetta sé ekki í fyrsta skipti sem þessi orðrómur fer á kreik. Nú komi hann upp á yfirborðið þar sem ákveðnir aðilar vilji vinna gegn serbneska landsliðinu.
,,Við (serbneska landsliðið) erum samheldnari en nokkru sinni áður og andrúmsloftið í leikmannahópnum hefur aldrei verið betra. Þessar sögusagnir eru fáránlegar, ég vil bara standa vörð um nafn mitt og orðspor."
Hann segist ætla fara með málið fyrir dómstóla ef þurfa þykir.
Serbar leika lokaleik sinn í riðlakeppni HM á morgun gegn Sviss, liðið á enn möguleika á sæti í 16-liða úrslitum en þarf sigur á morgun og treysta á sigur Brasilíu gegn Kamerún