Dimitri Seluk, fyrrum umboðsmaður Yaya Touré, sem lék á sínum tíma með Manchester City neitar því staðfastlega að hafa tekið við leynilegum greiðslum frá félaginu en talið er að ein ákæra ensku úrvalsdeildarinnar á hendur Manchester City snúist nákvæmlega um umræddar greiðslur.
Það er The Guardian sem greinir frá en í gær var opinberað að enska úrvalsdeildin hefði ákært Manchester City í yfir 100 liðum fyrir brot á reglum um fjármál félaga.
Fílabeinsstrendingurinn Yaya Touré var á mála hjá Manchester City á árunum 2010-2018. Þar varð hann Englandsmeistari í þrígang, enskur bikarmeistari einu sinni og deildarbikarmeistari í tvígang.
Umboðsmaður hans á þeim tíma, Dimirti Seluk, er sakaður um að hafa tekið við leynilegum greiðslum frá Manchester City á meðan að hann var talsmaður leikmannsins. Í samtali við The Guardian þvertekur Seluk fyrir umræddar sögusagnir.
„Það var allt upp á borðum,“ sagði Seluk við blaðamann The Guardian. „Það verður áhugavert hvað gerist í framhaldinu vegna þess að þessar vendingar komu mér á óvart. Yaya hafði einnig allt upp á borðum, borgaði skatta og allt.“
Seluk segir að hann yrði samstarfsfús ef sjálfstæði eftirlitsaðilinn, sem hefur nú málið á sinni könnu, myndi setja sig í samband við sig.
„Að sjálfsögðu, ég myndi greina þeim frá því sama og ég greini ykkur nú frá.“
Yfirlýsing frá Manchester City varðandi málið birtist í gær þar sem félagið sagðist ekki hafa gert neitt rangt af sér. Enn fremur fagnaði félagið því að málið væri nú til skoðunar hjá sjálfstæðum eftirlitsaðila.