Þegar þúsund dagar eru í opnunarleik HM 2022 gengur undirbúningurinn vel og er áætlað að þrír vellir opni á þessu ári.

Það þýðir að í árslok verða fimm vellir af átta sem verða notaðir á HM 2022 tilbúnir. Khalifa International völlurinn og Al Janoub hafa verið tilbúnir í langan tíma en framkvæmdir á Education City, Al Rayyan og Al Bayt völlunum eru á lokastigi.

„Þegar þúsund dagar eru í fyrsta leik er Katar komið lengra en nokkur þjóð sem hefur haldið mót til þessa. Katar ætlar að heilla heimsbyggðina og mun gera það. HM 2022 mun verða tímamót fyrir þetta land, félagslega og menningalega. Það mun opna dyrnar fyrir þennan hluta heimsins sem fótbolta-óður, sameina fólk víðsvegar úr heiminum og hjálpa því að skilja betur hvort annað,“ sagði Gianni Infantino, forseti FIFA í tilefni dagsins.

Mótið í Katar verður það fyrsta sem fer fram í Mið-Austurlöndunum en búið er að opna háhraða lestarkerfi í Doha til að auðvelda aðdáendum að komast á marga leiki samdægurs.

Þá er verið að leggja lokahönd á æfingasvæði liðanna ásamt því að stækka flugvöllinn til að taka á móti öllum þeim sem koma til Katar á HM.

Hluti af undirbúningnum var að HM félagsliða fór fram í Katar á síðasta ári og síðar á þessu ári þar sem 50.000 aðdáendur heimsóttu Katar.