Að­dá­endur enska knatt­spyrnu­liðsins Manchester United þustu nú fyrir skemmstu inn á knatt­spyrnu­völl fé­lagsins á Old Traf­ford í mót­mæla­skyni gegn eignar­haldi Glazer fjöl­skyldunnar. Frá þessu er greint á vef BBC.

Stór­leikur Liver­pool og United fer fram á vellinum í dag klukkan 15:30. Ó­ljóst er hvernig fer fyrir leiknum en Tómas Þór Þórðar­son, rit­stjóri Enska boltans á Símanum segir að­dá­endur einnig hafa um­kringt hótel leik­manna.

Mikil reiði hefur verið í stuðnings­mönnum liðsins undan­farnar vikur eftir að klúbburinn til­kynnti þátt­töku sína í Ofur­deildinni svo­kölluðu. Síðan þá hefur stjórn fé­lagsins hætt við en það hefur ekki reynst nóg til að dempa ó­á­nægju stuðnings­manna.

Í uppfærðri frétt BBC um málið kemur fram að mótmælendurnir hafi verið fjarlægðir af vellinum. Fastlega sé búist við því að leikur stórliðanna fari fram í dag.